Rannsóknarnefndir Alþingis

Forseti Alþingis segir ekki boðlegt að Alþingi skipi rannsóknarnefndir sem kosti mikla fjármuni um óskýr verkefni. Það er margt til í þessu.
Fjárlaganefnd fjallaði talsvert um þessi mál á síðasta kjörtímabili og ræddi þau við formenn rannsóknarnefnda og yfirstjórn þingsins. Enda ekki vanþörf á. Í kjölfar þeirrar umræðu sendi ég sem formaður fjárlaganefndar forseta Alþingis minnisblað þar sem fram kemur að þær áætlanir sem gerðar voru um kostnað við rannsóknir á vegum Alþingis hafi alls ekki verið fullnægjandi og eftirliti þingsins með þeim sömuleiðis verið verulega ábótavant. Það er Alþingis að ákveða hvort rannsóknarnefndir eru skipaðar og það er þingsins að ákveða fjármuni til þess. Það leiðir af sjálfu sér að um leið og þingið ákveður að stofna til útgjalda verður það að standa við þá ákvörðun eða afturkalla ákvörðun sína. Samþykkt rannsóknar er því um leið ákvörðun um útgjöld til hennar.
Niðurlag minnisblaðs míns til forseta þingsins er svona:  
„Formaður fjárlaganefndar telur að ekki eigi að hefja nýjar rannsóknir, hvorki þær sem búið er að ákveða að fram fari en ekki eru hafnar, né aðrar, fyrr en búið er að endurskoða lög sem um rannsóknarnefndir gilda. Í því sambandi er m.a. vísað til nefndarálits meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar við breytingar á lögum um rannsóknarnefndir sem samþykktar voru undir lok síðasta árs. Áður en ráðist verður í frekari rannsóknir verður að liggja skýrt fyrir hver ber ábyrgð á faglegu starfi þeirra og skipulagi, verkþáttum og fjármálum. Leggja þarf fram trúverðugar og tímasettar verkáætlanir fyrir hverja rannsókn fyrir sig ásamt kostnaðarmati sem og hvernig eftirliti með þeim verður háttað af hálfu Alþingis.“