Aðgerðir stjórnvalda í húsnæðismálum fyrr og nú snúa fyrst og síðast að því að aðlaga þau að séríslenskum aðstæðum. Sá veruleiki er m.a. um háa vexti, óstöðugt efnahagslíf, höft og gjaldmiðil sem við ein þjóða í heiminum notumst við. Allar tillögur stjórnmálamanna og leiðir sem farnar hafa verið í húsnæðismálum miða að því að viðhalda þessum aðstæðum rétt eins og þær séu óumflýjanlegar. Þess vegna er verið að ræða um að breyta byggingarreglugerðum, draga úr gæðum húsnæðis, byggja gámahús, greiða háar upphæðir úr ríkissjóði til lánastofnana, mismuna fólki eftir aldri og efnahag o.s.frv. Allt gert til að viðhalda aðstæðunum en fátt til að breyta þeim til betri vegar.