Sannkölluð brunaútsala

Í dag samþykkti Alþingi lagafrumvarp sem heimilar fjármálaráðherra að selja/einkavæða allar eignir sem ríkið eignaðist vegna samkomulags við kröfuhafa um uppgjör gömlu bankanna. Samkvæmt lögunum er fjármálaráðherra heimilt að stofna félag með þriggja manna stjórn til að annast söluna. Um er að ræða mikið magn ólíkra eigna að andvirði á bilinu 60-70 milljarða króna. Þingmenn hafa ekki fengið upplýsingar um hvaða eignir er um að ræða eða hvert áætlað söluvirði hverrar eignar er. Þeir hafa því ekki haft tækifæri til að mynda sér skoðun á því hvort rétt sé að selja allar þessar eignir eða hvort ríkið ætti að nýta þær með öðrum hætti. Frá og með deginum í dag hefur Alþingi enga aðkomu að söluferli þessara eigna eða hvernig þeim verður ráðstafað að öðru leyti. Fjármálaráðherra sjáflstæðisflokksins hefur fengið þær allar í hendur til ráðstöfunar.
Framundan er stærsta einkavæðing Íslandssögunnar, sannkölluð brunaútsala á sameiginlegum eignum.
Það var meira en lítið merkilegt að heyra þingmenn Pírata og Bjartrar framtíðar fagna þessu sérstaklega og óska fjármálaráðherra til hamingju af þessu tilefni.