Sjómannadagurinn vekur upp margar góðar minningar. Ein er sú þegar pabbi bað mig, þá 10-12 ára gamlan, að koma með sér í sjómannadagsmessu í Ólafsfirði. Sem ég auðvitað gerði. Messan var örugglega hefðbundin í alla staða, man það ekki. Ég man hins vegar að pabbi missti höfuðið ýmist fram á bringu, út á hlið eða aftur allan tímann sökum syfju og þreytu. Hann hafði komið í land fyrr um nóttina. Ég mátti ýta reglulega í hann til að reyna að halda honum vakandi en það dugði skammt. Mér var ekki skemmt fyrr en löngu seinna. Sennilega var svipað ásigkomulag á fleiri sjómönnum þennan sunnudagsmorgun í kirkjunni í Ólafsfirði. Þeir voru hressari síðar um kvöldið ef ég man rétt.