Á vef Vinnumálastofnunnar má sjá að atvinnuleysi hér á landi mælist 6,5% í apríl sl. og hefur lækkað um 0,6 prósentustig á milli mánaða. 6,5% er of há tala. Um það verður ekki deilt. Þó er þetta minnsta atvinnuleysi frá Hruni og það minnsta sem mælist á norðurlöndum að Noregi undanskildu. Samkvæmt upplýsingum OECD mældist atvinnuleysið í Danmörku 8,1%, Finnlandi 7,5% og Svíþjóð 7,3%. Noregur er sem fyrr í sérflokki hvað þetta varðar en þar mældist atvinnuleysið 3,2% í febrúar.
Þrátt fyrir of háar atvinnuleysistölur er þó ánægjulegt að sjá þær lækka og vera komnar undir það sem minnst hafa verið í nokkur ár. Það eru að auki sterkar vísbendingar um að atvinnuleysi mun lækka enn meira á næstu mánuðum í kjölfar aukinna umsvifa jafnt í einkageiranum sem þeim opinbera. Stjórnvöld hafa þegar hafið framkvæmdir eða eru með í undirbúningi framkvæmdir fyrir ríflega 100 milljarða króna. Má þar nefna byggingu nýs Landsspítala sem er komin vel á veg í undirbúningi, bygging mörg hundruð hjúkrunarrýma eru þegar í gangi, bygging nýs fangelsis fer fljótlega af stað, framkvæmdir við gerð jarðganga í Vaðlaheiði sömuleiðis auk fleiri stórra og smærri verkefna sem þegar eru í gangi.
Lækkandi atvinnuleysi og góðar horfur bera þess öruggt vitni að Ísland er á hraðri leið upp úr Hruninu þó enn sé langt á endastöðina.
Þetta getur enginn dregið í efa með nokkurri sanngirni.