Dagurinn í gær var vondur fyrir framsóknar-og sjálfstæðismenn á Alþingi. Daginn hófu þau á því að halda áfram málþófi sínu gegn því að þjóðinni verði heimilt að segja álit sitt á drögum að nýrri stjórnarskrá. Það er ekki góður málstaður að verja eins og heyra má á ræðum þingmanna.
Um miðjan dag máttu þau svo kynningu á framkvæmda- og fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar til næstu ára sem fór illa í þessa tvo systurflokka. Þeir gátu ekki tekið því að nú hafi skapast færi fyrir svo umfangsmiklar aðgerðir sem í áætluninni felast. Enda hafa flokksmenn þeirra spáð því látlaust árum saman að hér á landi væri allt að fara fjandans til. Svo fúlir voru forystumenn þeirra að þeir treystu sér ekki til að mæta til fundar við stjórnarliða til að fara yfir áætlunina og ræða málin.
Það var annar tónn í fulltrúum vinnumarkaðarins sem funduðu í Iðnó fyrr í dag um málið með fulltrúum stjórnvalda. Það var ekki fýlan í þeim.
Þegar það rann síðan upp fyrir þingmönnum framsóknar- og sjálfstæðisflokks að ríkisstjórninni hafði borist liðsauki við áætlunina utan stjórnarflokkanna í Guðmundi Steingrímssyni þá var eins og allt loft væri úr þeim. Enda hljóta það að vera ömurleg örlög fyrir þessa tvo flokka að vera í stjórnarandstöðu gegn ríkisstjórn sem hefur þurft að fást við jafn óvinsæl verkefni og þessi hefur verið að fást við og þurfa að horfa upp á hana styrkja sig frá degi til dags. Og ekki ólíklegt að hún eigi eftir að styrkja sig enn frekar.
Undir kvöld fóru svo að berast tölvupóstar í tuga ef ekki hundraðavís til þingmanna þar sem málþófi flokkanna er harðlega mótmælt og þess krafist að þeir láti af þessari hegðun sinni og hleypi þjóðinni að verkinu.
Föstudagurinn 18. maí 2012 verður því væntanlega ekki minnst sérstaklega í sögubókum framsóknar- og sjálfstæðisflokksins. Þvert á fyrirætlanir eru þessir tveir flokkar (eða er þetta kannski bara einn flokkur?) einangraðir í afstöðu sinni gegn því að þjóðin fái að segja álit sitt á tillögum um nýja stjórnarskrá. Þó var það þjóðin sem hóf þá umræðu án afskipta þingsins og þaðan koma tillögurnar.
Þau eru síðan byrjuð aftur á þessum fallega laugardegi og virðast hvergi ætla að gefa eftir í baráttu sinni gegn nýrri stjórnarskrá lýðveldisins.
Hlutskipti framsóknar- og sjálfstæðismanna á Alþingi er hvorki öfundsvert né eftirsóknarvert.
Það er ömurlegt.