Í fyrri nótt gerði ég þau mistök að gefa í skyn að þingmaðurinn Jón Gunnarsson væri undir áhrifum áfengis við þingstörfin. Það var hann ekki og því bað ég afsökunar á orðum mínum og dró þau til baka. Við Jón innsigluðum síðan þessa afsökunarbeiðni með handabandi eins og á að ljúka svona málum.
En því lauk ekki þannig eins og ég hélt.
Síðan þá hefur sjálfstæðisflokkurinn (og framan af framsóknarflokkurinn líka) beitt áður óþekktum refsiaðgerðum gegn pólitískum andstæðingi sínum, sem felast í því að hundsa mig í rökræðum úr ræðustól Alþingis og virða mig ekki viðlits að öðru leiti. Með ánægjulegum undantekningum þó af hálfu Ásbjörns Óttarssonar og síðar Kristjáns Þórs Júlíussonar. Jafnvel sómakærir menn úr liði sjálfstæðismanna hafa látið sig hafa það að taka þátt í eineltinu frami fyrir alþjóð. Hefði ég seint trúað því.
Framsóknarmenn hættu hinsvegar fljótlega þessum ljóta leik.
Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld var síðan haft eftir þingflokksformanni sjálfstæðisflokksins að ástæða þess væri að ég hefði ekki beðið afsökunar með réttum hætti. Því yrði refsiaðgerðum þeirra haldið áfram og taka jafnvel önnur skref í þá áttina á næstunni ef þeim þóknast svo.
Ætti maður að vera hræddur? Hvað gæti verið í undirbúningi af hálfu þingflokks sjálfstæðisflokksins? Hvert gæti næsta skref í fordæmalausri eineltisáætlun þeirra verið?
Það hefur hinsvegar farið hljótt að þessa sömu nótt hélt Árni Johnsen eina ómerkilegustu ræðu yfirstandandi þings þar sem hann vék með ömurlegum hætti að einum þingmanni stjórnarliða með dylgjum og ósannindum um þingmanninn og ættingja hans, lífs sem liðna. Árni hefur enn ekki beðið þingmanninn afsökunar á orðum sínum, heldur muldraði hann ofan í bringu sér eitthvað sem enginn áttaði sig á hvað þýddi. Hann dró ekkert til baka og bað engan afsökunar. Árni neitaði síðan að víkja úr ræðustóli og að ræðu hans lokinni greip forseti þingsins til þess ráðs að gera hlé á þingfundi vegna framgöngu þingmannsins.
Hvernig ætli Árni Johnsen sé meðhöndlaður í þingflokki sjálfstæðisflokksins? Ætli þingflokkurinn sé að íhuga næstu skref gegn honum? Væri ekki rétt að Stöð 2 myndi spyrja þingflokksformann flokksins út í það?
Kannski er full ástæða til að hafa áhyggjur af Árna Johnsen?