Því er haldið fram að stór hluti íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja verði gjaldþrota ef frumvarp um veiðigjöld verður að lögum. Því er sömuleiðis haldið fram að með því muni allt fé sogast úr þeim fyrirtækjum sem eftir standa þannig að þau geti hvorki endurnýjað búnað eða viðhaldið sér með eðlilegum hætti.
Þessu er ég algjörlega ósammála. Staðreyndin er sú að þrátt fyrir að frumvarpið verði að lögum mun framlegð í sjávarútvegi verða ein sú mesta í sögu greinarinnar eins og sést á myndinni hér til hliðar.
Hversvegna fór sjávarútvegurinn ekki á hliðina á árunum 2001 – 2008? Á þeim árum var framlegð minni en hún verður á yfirstandandi ári – þó svo að veiðigjöld yrðu greidd á því ári samkvæmt því sem frumvarpið gerir ráð fyrir að verði gert. Ég man ekki til þess að þá hafi verið rætt um að sjómenn ættu að taka aukinn þátt í rekstrarkostnaði útgerða en þá þegar var hvað þá að þeim væri siglt til mótmæla af þeim sökum. Hvaða ástæða er þá til þess í dag þegar afgangurinn er enn meiri og upphæðirnar enn hærri?
Umræðan um veiðigjöldin er fyrir löngu komin út fyrir öll eðlileg mörk og engin innistæða er fyrir öllum þeim stóryrðum sem haldið er fram um afleiðingar þeirra. Þetta er í rauninni það sem hefur alla tíð háð umræðunni um íslenskan sjávarútveg. Hún hefur nánast alltaf snúist yfir í öskurkeppni þar sem öskrin hafa kaffært alla heilbrigða rökræðu um þessa mikilvægustu atvinnugrein landsins, sjávarútveginn. Hann á annað og betra skilið en það.