Salka Valka er eina af skærustu perlum íslenskra bókmennta. Þegar bókin kom fyrst út, á árunum 1931-32 (í tveimur bindum) voru mikil átök og kreppa hér á landi. Rétt eins og nú. Bókin segir m.a. frá átökum milli þeirra sem lúta valdi og hinna sem valdið hafa. Rétt eins og nú og endurspeglaðist að hluta til í mótmælum Landssambands íslenskra útvegsmanna á Austurvelli í dag. Okkur þingflokksformönnum stjórnarflokkanna, mér og Magnúsi Orra Schram fannst því við hæfi að færa stjórnarformanni LÍÚ eintak af bókinni um leið og hann færði okkur ályktun mótmælafundarins við þinghúsið í dag. Á titilsíðu bókarinnar höfðum við skrifað eftirfarandi tilvitnun í Sölku Völku sem okkur fannst ekki síður við hæfi í tilefni dagsins: „Sá sem ekki er reiðubúinn til að berjast á móti ránglætinu í þjóðfélaginu, ég kalla hann bara ekki mann.“ Stjórnarformaður LÍÚ tók glaður við bókinni sem hann kvaðst vera vel kunnugur og sagði jafnframt að úr henni yrði reglulega lesið innan veggja sambandsins við ýmis tækifæri.
Það veit ég að hann stendur við.