Brennivín og stjórnmál

Nú stendur yfir loka umræða um fjárlög næsta árs. Fjárlagafrumvarpið hefur verið til umfjöllunar í fjárlaganefnd í ríflega þrjá mánuði og tekið ýmsum breytingum. Meginmarkmið þess hafa þó haldið, þ.e. að reka ríkið nánast hallalaust á næsta ári eða sem nemur einum hundraðasta hluta þess sem var í byrjun árs 2009.

Einu breytingarnar sem hafa verið gerðar á frumvarpinu koma frá meirihlutanum. Minnihlutinn hefur ekkert lagt fram í þeim efnum – að einni tillögu undanskilinni. Þeir leggja sem sagt til að fallið verði frá því að hækka brennivín og tóbak. Það er nú þeirra framlag í ár.

Þeim er brennivín reyndar hugleikið eins og kom m.a. fram í ársbyrjun 2009 þegar allt var hrunið í hausinn á okkur. Fyrsta mál á dagskrá þegar þing kom saman eftir jólaleyfi var – jú, brennivín í búðir!

Hvað er þetta með sjálfstæðismenn og brennivín?

Nauðsynlegt að upplýsa málið

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur loksins upplýst þjóðina um sunnudagsmessur sem hafa verið hulu sveipaðar allt of lengi. Það var þó ekki fyrr en þingmaður sjálfstæðisflokksins krafðist upplýsinga um málið í krafti stöðu sinnar að upp komst um hvernig messurnar hafa verið mannaðar síðustu tíu árin eða svo.

Nú liggur það sem sagt fyrir að messað hefur verið í útvarpinu a.m.k. í áratug og sömuleiðis hverjir hafa staðið þar að verki.

Það kemur í ljós þegar listinn yfir presta í tíðniröð er skoðaður að Karl Sigurbjörnsson biskup trjónir á toppnum enda annað varla við hæfi. Næstur á eftir honum kemur svo Hjálmar Jónsson prestur í Dómkirkjunni og fyrrverandi þingmaður Flokksins og þ.a.l. hafinn yfir grun um eitthvað misjafnt.

En svo fer nú að myrkvast yfir málinu eins og sagt hefur verið.

Ástarsamband ASÍ og sjálfstæðisflokksins

Fyrir tveim árum gerðu ríkisstjórnin, fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðirnir með sér samkomulag um úrræði vegna skuldavanda heimila. Í því fólst m.a. samkomulag um sérstakar niðurgreiðslur vegna vaxtakostnaðar af íbúðahúsnæði (liður 5). Kostnaður við þessar aðgerðir námu 6 mia.kr. á ári og stóð yfir í tvö ár.

Lífeyrissjóðirnir stóðu ekki við samkomulagið og neituðu að taka þátt í að greiða niður vexti af lánum skuldugra heimila.

Gylfi Arnbjörnsson segir að kornið sem fyllti mælinn hjá honum hafi verið skattlagning á lífeyrisgreiðssgreiðslur í þeim tilgangi að afla tekna til að greiða niður vexti skuldugra heimila. Þannig hefur hann beitt ASÍ fyrir vagn lífeyrissjóðanna í baráttunni gegn almenningi í landinu.

Áheit: Kippa af Kalda í boði

Ég hef verslað tvisvar í Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins á kjörtímabilinu. Í bæði skiptin varð það gert til að uppfylla áheit um málþóf ssjálfstæðisflokksins. Það hefur sem sagt kostaði mig tvær kippur af Kalda að hvetja menn til dáða í málþófinu. Kaldi er eins og allir vita framleiddur á Árskógssandi í Eyjafirði og þykir víst einn besti bjór sem völ er á hér á landi.

Nú tel ég peningum mínum ekkert sérstaklega vel varið í áfengi og tímanum enn verr varið í að sitja undir innihaldslitlu málþófi.

Samt sem áður þá ætla ég nú að heita á þingmenn sjálfstæðisflokksins sem aldrei fyrr. Sá þingmaður Flokksins sem nær að halda 10 ræður eða fleiri í umræðunum um rammaáætlun fær frá mér kippu af Kalda, aðra kippu við 20 ræður og svo koll af kolli þar til Kaldinn klárast. Ég geri engar kröfur um efnislegt innihald eða gæði málflutningsins ræðumanna enda varla sanngjarnt að ætlast til að mikið kjöt sé á beininu þegar búið er að naga það 10 sinnum eða oftar.

En semsagt: Kippa af Kalda fyrir hvern tug ræða þingmanna Flokksins sem geta þá farið léttir inn í jólin.

Pólitísk sátt?

Í umræðum um rammaáætlun á þinginu í dag segja sjálfstæðismenn að engin sátt sé um málið og nauðsynlegt sé að ná pólitískri sátt um það.

Í umræðum um nýja stjórnarskrá segja sjálfstæðismenn að ósætti sé um málið og nauðsynlegt sé að ná pólitískri sátt um það.

Í umræðum um breytingar í stjórnarráðinu og fækkun ráðherra sögðu sjálfstæðismenn að um það mál væri ósætt og nauðsynlegt sé að ná pólitískri sátt um það.

Í umræðum um veiðigjaldið sögðu sjálfstæðismenn að um það mál væri alls ekki allir sammála og nauðsynlegt sé að ná pólitískri sátt um það.

Í umræðum um fjárlög næsta árs segja sjálfstæðismenn að miklar deilur séu um málið og nauðsynlegt sé að ná pólitískri sátt um það.

Ætli það geti verið að skilgreining sjálfstæðismanna á pólitískri sátt sé að þeir einir séu sáttir?

Engir vitleysingar ...

Félag sjálfstæðismanna í Grafarvogi eru skapandi í störfum sínum fyrir Flokkinn. Nú dreifa þau mynd af þingmönnum og ráðherrum í líki herskárra Talibana sem fylgt er eftir með texta þar sem fram kemur sú skoðun sjálfstæðismannanna að lífið á Íslandi sé að verða Talibönum þóknanlegt.

En hverjir standa þarna að baki?

Stjórn Félags sjálfstæðismanna í Grafarvogi er skipuð 17 manns. Formað félagsins heitir Emil Örn Kristjánsson. Sá góði drengur er fjölskyldumaður, faðir 5 barna og jafnmargra barnabarna. Hann er með stúdentspróf frá Verslunarskóla Íslands og B.Ed próf frá Kennaraskóla Íslands jafnframt því að vera með leiðsögumannapróf.

Sem sagt enginn vitleysingum ef marka má gráðurnar.

Fulltrúar hinnar kolsvörtu framíðar

Talsmenn hins hefðbundna atvinnulífs eru ekkert sérstaklega jákvæðir framtíðinni. Þeim virðist öðrum fremur lagið að draga upp dökka mynd af því sem framundan er og sjá sjaldan ljóstýru í myrkrinu.

Icelandair tilkynntu um það í gær að félagið hygðist kaupa 12 nýjar farþegaþotur sem áætla má að kosti um 150 milljarða íslenskra króna. Félag sem ræðst í svo risavaxnar fjárfestingar er ekki að stefna inn í hyldýpi svartrar framtíðar. Þvert á móti mætti ætla að ákvörðun félagsins sé byggð á framtíð sem vert er að fjárfesta í.

Áframhaldandi málþóf með fjárlögin

Hlé var gert á annarri umræðu fjárlaga kl. 06:20. Umræðan hefur þá staðið yfir frá fimmtudeginum í síðustu viku og hefur þegar slegið öll fyrri met. Á línuritinu hér til hliðar má sjá hvað önnur umræða fjárlaga síðustu tveggja áratuga hefur staðið lengi í klukkutímum talið. Á þessu sést glögglega í hvaða leiðangri sjálfstæðisflokkurinn er með þetta stærsta mál þingsins, sjálf fjárlög íslenska ríkisins.

Hér má svo sjá hvaða þingmenn hafa talað það sem af er umræðunni og hvað oft. Ræðukóngur sem stendur er Ásbjörn Óttarsson með 13 ræður og næstur á eftir honum kemur Einar K Guðfinnsson með 9 ræður þegar þetta er skrifað.

Þeirri kenningu var hent á loft í þinghúsinu í nótt að með málþófinu væru þingmenn sjálfstæðisflokksins að reyna að draga athyglina frá Vafningsmálum formanns flokksins. Það finnst mér langsótt án þess þó að hafa nokkra haldbæra skýringu á málþófinu.

Óviðeigandi með öllu

Það er eins og þeim á DV sé algjörlega ókunnugt um að Bjarni Benediktsson er formaður sjálfstæðisflokksins. Formenn hans hafa hingað til ekki mátt sæta því að vera spurðir óþægilegra spurninga, nema þá fyrir Landsdómi. Annars spyr maður ekki formenn Flokksins spurninga. Maður gerir bara ekki svoleiðis.

Það er óviðeigandi.

Reiður og pirraður

Ef marka má fréttir er félagi Nubo bæði reiður og pirraður. Það er ástand sem enginn ætti að vera í um lengri tíma. Reiðir menn og pirraðir eru öðrum líklegri til að gera einhvern óskunda af sér, t.d. að yrkja níðvísur en eins og allir muna þá er Nubo ágætlega skáldmæltur. En svo gætu reiðir menn og pirraðir gert eitthvað annað og verra af sér sem maður þorir varla að hugsa til.

Vonandi drepur hann bara ekki köttinn.

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS