Áheit: Kippa af Kalda í boði

Ég hef verslað tvisvar í Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins á kjörtímabilinu. Í bæði skiptin varð það gert til að uppfylla áheit um málþóf ssjálfstæðisflokksins. Það hefur sem sagt kostaði mig tvær kippur af Kalda að hvetja menn til dáða í málþófinu. Kaldi er eins og allir vita framleiddur á Árskógssandi í Eyjafirði og þykir víst einn besti bjór sem völ er á hér á landi.

Nú tel ég peningum mínum ekkert sérstaklega vel varið í áfengi og tímanum enn verr varið í að sitja undir innihaldslitlu málþófi.

Samt sem áður þá ætla ég nú að heita á þingmenn sjálfstæðisflokksins sem aldrei fyrr. Sá þingmaður Flokksins sem nær að halda 10 ræður eða fleiri í umræðunum um rammaáætlun fær frá mér kippu af Kalda, aðra kippu við 20 ræður og svo koll af kolli þar til Kaldinn klárast. Ég geri engar kröfur um efnislegt innihald eða gæði málflutningsins ræðumanna enda varla sanngjarnt að ætlast til að mikið kjöt sé á beininu þegar búið er að naga það 10 sinnum eða oftar.

En semsagt: Kippa af Kalda fyrir hvern tug ræða þingmanna Flokksins sem geta þá farið léttir inn í jólin.