Hlé var gert á annarri umræðu fjárlaga kl. 06:20. Umræðan hefur þá staðið yfir frá fimmtudeginum í síðustu viku og hefur þegar slegið öll fyrri met. Á línuritinu hér til hliðar má sjá hvað önnur umræða fjárlaga síðustu tveggja áratuga hefur staðið lengi í klukkutímum talið. Á þessu sést glögglega í hvaða leiðangri sjálfstæðisflokkurinn er með þetta stærsta mál þingsins, sjálf fjárlög íslenska ríkisins.
Hér má svo sjá hvaða þingmenn hafa talað það sem af er umræðunni og hvað oft. Ræðukóngur sem stendur er Ásbjörn Óttarsson með 13 ræður og næstur á eftir honum kemur Einar K Guðfinnsson með 9 ræður þegar þetta er skrifað.
Þeirri kenningu var hent á loft í þinghúsinu í nótt að með málþófinu væru þingmenn sjálfstæðisflokksins að reyna að draga athyglina frá Vafningsmálum formanns flokksins. Það finnst mér langsótt án þess þó að hafa nokkra haldbæra skýringu á málþófinu.
Ég leyfi mér hinsvegar að vona og bið þess, að þingmenn Flokksins bjóði upp á innihaldsríkari og skemmtilegri ræður í framhaldinu en þeir gerðu í nótt.
Þvílík leiðindi sem það voru.