Karl Th. Birgisson, sá mikli sómadrengur og lífskúnster svarar vangaveltum mínum um hvað valdi miklu fylgi Bjartrar framtíðar í skoðanakönnunum. Sjálf segjast talsmenn flokksins vera að gera eitthvað vel sem þeir ætla að halda áfram að gera vel. Ég veit bara ekki hvað það er og hef ekki fengið nein svör við því. Það er svo sem engin meining í þessum pælingum mínum önnur en sú að velta fyrir mér hversvegna hlutirnir gerast eins og þeir virðast vera að gerast.
Karl segir að finna megi vísbendingu um þetta í ákvörðun Samfylkingarinnar og Besta flokksins í borgarstjórn að flytja skrifstofu borgarstjóra í nokkrar vikur í Breiðholtið og halda nokkra fundi borgarráðs þar sömuleiðis. Karl bendir reyndar réttilega á að Besti flokkurinn og Björt framtíð eru ekki eitt og hið sama þó finna megi skyldleika þarna á milli.
Karl segir: „Hugmyndin um Breiðholtið virðist einföld, en er það ekki. Fyrst þarf náttúrlega að fá hana og ég fullyrði að flestir borgarstjórar á undan Jóni Gnarr (eða þeirra fólk) hefðu hreinlega aldrei fengið þessa hugmynd. Hitt er svo, að hrinda henni í framkvæmd. Að hlæja hana ekki út af borðinu á fyrsta fundi. Það er hreint ekki sjálfgefið og ekki á færi allra að hugsa þannig. Út fyrir rammann, svo að klisjan sé notuð.“
Þetta er að sönnu góð hugmynd og ánægjulegt að borgarstjórnarmeirihlutinn ætlar að hrinda henni í framkvæmd. Það breytir engu í því sambandi að hugmyndin er gömul og hefur áður verði framkvæmd á öður stjórnsýslustigi. Það gerir málið ekkert verra. Þvert á móti er það vísbending að hún sé góð og verð frekari útfærslu. Ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar hélt fyrsta ríkisstjórnarfund lýðveldissögunnar utan Reykjavíkur í byrjun kjörtímabilsins. Það var reynar fyrsti fundur ríkisstjórnarinnar eftir kosningar og var haldinn á Akureyri. Hún hefur síðan fundað á Ísafirði, Egilsstöðum og Reykjanesbæ auk þess að standa fyrir fundum og ráðstefnum með heimamönnum um málefni þeirra. Þetta hefur engri ríkisstjórn dottið það til hugar að gera fram að þessu. Hugmyndin rúmaðist ekki innan kassans hjá gömlu flokkunum og málsvörum þeirra. Hún var utan þægindarammans og kom því líklega aldrei upp hjá þeim.
Því varð ekkert úr henni fyrr en þegar ný ríkisstjórn innleiddi nýjar hugmyndir sem nú er fylgt eftir af borgarstjórn Reykjavíkur í örlítið breyttri útgáfu. Sem er afar gott.
Þetta er því ekki ein af skýringunum auknu fylgi Bjartar framtíðar, hjá félaga Karli Th. Birgissyni.
Við gefumst ekki upp að leita, félagarnir.