Lélegasti stjórnarandstöðuflokkur lýðveldistímans?

Stjórnmálafræðingar og álitsgjafar um stjórnmál hafa spáð ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar stuttum líftíma allt frá kosningum. Heldur hefur þó dregið úr þeim spádómum að undanförnu enda kjörtímabilið brátt á enda. Þess í stað er því nú haldið fram að stjórnin hafi ekki komið neinu í verk sem heitið getur og stærstu málin enn eftir. Um þetta fjallaði ég m.a. hér á síðunni fyrir stuttu.

Í gær kom Alþingi saman eftir jólaleyfi. Um miðjan dag hafði þingið þegar samþykkt Rammaáætlun með góðum meirihluta, stjórnarflokkarnir sett ESB málið í tryggt ferli fram yfir kosningar og stjórnarandstaðan verið svipt vopnum sínu til að reka fleyg í raðir stjórnarliða.

Enda var það ráðalaus hópur stjórnarandstæðinga sem sat í þingsalnum í gærdag. Hópur fólks sem hafði enga hugmynd um hvaðan vindurinn stóð á þau og kunni engin svör við tíðindum dagsins og hefur þau ekki enn.

Ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar hefur af öryggi náð hverju málinu af öðru í gegnum þingið allt kjörtímabilið án teljandi fyrirstöðu. Í gær sýndu þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingar styrk sinn enn og aftur þvert ofan í hrakspár álitsgjafanna sem nú hljóta að fara að snúa sér að því að greina hvað veldur máttleysi stjórnarandstöðunnar.

Ætli Framsóknar- og sjálfstæðisflokkurinn sé lélegasti stjórnarandstöðuflokkur lýðveldistímans?