Bakaradrengurinn úr Garðabænum

Gerbakstur er vandasöm iðja eins og allir vita sem reynt hafa. Það þarf að huga að mörgum þáttum ef bakstur gerbrauða á að heppnast svo úr verði gómsætt brauð sem bráðnar í munni. Það er t.d. ekki sama hvers konar hveiti er notað eða hvernig því er blandað saman við hræruna jafnt og þétt allt þar til deigið er orðið eins og það á að vera. Hitastig vatnsblöndunnar sem gerið er leyst upp í er enn mikilvægari þáttur. Það má hvorki vera svo hátt að það drepi hreinlega gerið eða svo kalt að deigið lyfti sér svo hægt að brauðið verði beinlínis ónýtt. Sama á við um umhverfishitann sem deigið er látið lyfta sér í sem hvorki má vera of hár né of lágur, heldur bara einfaldlega réttur. Deigið verður líka að vera full hefað áður en það er mótað í það form af brauði sem því er ætlað að verða. Annars er hætta á að það hefist of hratt í heitum ofninum í litlum einingum, rifni svo á endanum og skítfalli. Fátt er eins ömurlegt eða ósexí og fallið gerbrauð og fátt vitnar eins um lélegan bakara og flatt og dautt gerbrauð.

Þetta er þó aðeins örfá dæmi um það sem þarf að hafa í huga við gerbakstur, sem er vandasöm iðja, eins og áður hefur komið fram.

Mér datt  þetta í hug þegar ég sá það haft eftir Bjarna Benediktssyni að sjálfstæðisflokkurinn legði  meiri áherslu á að stækka kökuna (þjóðarumsvifin) en að skipta henni með réttlátum hætti. Bjarni og félagar hafa áður reynt að „stækka kökuna“ án þess að hafa rétta hráefnið í hana eða kunnað að baka hana. Það endaði með því að hún féll og vitnaði um að bakarinn hafði hvorki rétt hráefni í baksturinn né kunni hann með það að fara. Hitastigið var of hátt. Gerið dó. Hveitiblandan röng. Deigið hefaðist ekki eins og það átti skilið að fá að gera.

Það sem er þó óhugnanlegast af öllu er að bakaradrengurinn úr Garðabænum er enn með sömu uppskriftina á borðinu hjá sér og þá sem féll dauð í ofninum um árið.

Nú segist hann þegar hafa sett á sig svuntuna, sé byrjaður að hnoða deigið, tilbúinn að munda kökukeflið, búinn að kynda ofninn svo hann geti stækkað kökuna.

Sami bakarinn – með sömu uppskriftina.

Það er ekki beint gæfulegt.