Til í allt – án Bjarna?

Það stefnir í góðan og verðskuldaðan kosningasigur Vinstri grænna síðar í mánuðinum. En flokkurinn á erfitt verk fyrir höndum. Miðað við skoðanakannanir er ljóst að það verður ekki myndið nein vinstristjórn í landinu. Hins vegar gætu kosningarnar skilað ágætlega skipaðri félagshyggjustjórn Vinstri grænna Samfylkingar ásamt leifunum af framsóknarflokknum. Ég hef þó efasemdir um að samanlagt fylgi þessara þriggja flokka nægi til þess að mynda öfluga ríkisstjórn.
Kosningarnar gætu líka skilað okkur hægri-öfgastjórn sjálfstæðisflokks, flokks Sigmundar Davíðs og annarra loddara sem munu ná mönnum á þing. Ég er samt efins um að sjálfstæðisflokkurinn muni leggja í slíka hættuför. Fyrir aðra flokka er sjálfstæðisflokkurinn undir forystu Bjarna Benediktssonar líkt og hættulegur smitberi spillingar, sérhagsmuna, hagsmunagæslu, leyndarhyggju, frændhygli, græðgi og óstjórnar. Það kemur enginn nálægt honum nema með töngum.

Hvorki flókið né erfitt

Ég skil eiginlega hvorki upp né niður í þessu máli. Hvernig getur það gerst að yfirvöld meini ungu fólki aðgang að opinberum skólum? Hvernig má það vera að sextán ára unglingum sem þarfnast aðstoðar umfram aðra er neitað um skólavist? Hvað er átt við þegar sagt er að engin úrræði séu til staðar eða að ráðuneytið leiti lausna í málinu? Er lausnin týnd? Hver týndi henni?
Þetta nær ekki nokkurri átt.
Úrræðið sem sagt er að ekki sé til staðar er fyrir hendi og heitir skóli. Lausnin sem sögð er vera týnd er aðgangur að skóla sem er til staðar. Það eru nægir peningar til að kosta nám þessara ungmenna ef vilji er til þess. Þetta er ekki flókið né erfitt og þarfnast hvorki sérstakra úrræða né nýrra lausna.

Lýsandi vörn fyrir glataðan málstað

Karl Garðarsson, fyrrverandi þingmaður framsóknarflokksins, setti þessa færslu (sjá mynd) inn á feisbúkksíðu sína eftir að ég tók skattaskjólsmál þáverandi forsætisráðherra og flokksbróður hans upp á Alþingi vorið 2016. Það leiddi síðan til þess að ríkisstjórnin féll, boðað var til kosninga og framsóknarflokkurinn rifnaði í tætlur.
Af öllu því rugli sem þetta lið sendi mér af þessu tilefni þykir mér einna vænst um færslu Karls. Hún er svo lýsandi fyrir þann glataða málstað sem þetta lið var að verja.
Svo hefur hún líka elst svona svakalega vel.

 

Loddararnir taka yfir

Loddarar eru að yfirtaka íslensk stjórnmál. Fari svo sem horfir má búast við að flokkar loddara muni fá samanlagt um fjórðung atkvæða í kosningunum í næsta mánuði. Á pari við þá verður svo sjálfstæðisflokkurinn, gegnsýrður af spillingu sem Bjarni Benediktsson mun að öllum líkindum leiða í gegnum verstu kosningar frá stofnun flokksins. Saman gætu þessi pólitísku öfl loddara og spillingar myndað ríkisstjórn eftir kosningar.
Eina leiðin til að koma í veg fyrir það er að vegur Vinstri grænna verði sem mestur í kosningunum. Sem betur fer virðist stór hluti kjósenda gera sér grein fyrir því ef marka má skoðanakannanir.

Klofningsflokkar

Fáir flokkar hafa klofnað jafn oft og rækilega og sjálfstæðisflokkur og framsókn. Saga þeirra er vörðuð endalausum klofnings- og sérframboðum. Á þeim er þó ákveðinn eðlismunur hvað þetta varðar. Klofningur í framsókn hefur þar til nú nánast alltaf verið bundinn við einstaklinga sem fara í sérframboð í einstökum kjördæmum, oftast með tengingu við móðurflokkinn. Sjálfstæðisflokkurinn á hinn bóginn klofnar í fleiri flokka sem bjóða fram í öllum kjördæmum, nú síðast Viðreisn þó dæmi séu um framsóknarklofning þar líka. Það er þó ekki meiri munur á þeim hvað þetta varðar en á kúk og skít.

Það er vinstrisveifla í spilunum.

Það eru til ýmsar leiðir til að segja frá hlutunum. Ein er t.d. að lýsa niðurstöðum skoðanakönnunar líkt og hér er gert þannig að Vinstri græn og sjálfstæðisflokkurinn séu jafn stórir. Sem er rétt. Hin er sú að segja frá hinu augljósa að fylgi við sjálfstæðisflokkinn hrynur á meðan Vinstri græn stórauka fylgi sitt. Sem er líka rétt og jafnframt fréttin í málinu. Sú sveifla segir meira um hvað er að gerast í íslenskum stjórnmálum en það hvort flokkarnir eru jafnir eða ekki.
Það er vinstrisveifla í spilunum!

 

 

Óvenju slakir formenn

Formenn stjórnmálaflokkanna eru heilt yfir óvenju slakir stjórnmálamenn. Flestir urðu þeir formenn vegna upplausnar í flokkum sínum, sumir án þess að hafa ætlað sér það. Þannig tók Bjarni Benediktsson við sjálfstæðisflokknum úr rústum Hrunsins af Geir H. Haarde. Sigurður Ingi Jóhannsson tók við framsókn eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hrökklaðist frá vegna spillingar. Óttarr Proppé tók við Bjartri framtíð eftir að Guðmundur Steingrímsson hafði verið flæmdur í burtu. Logi Einarsson varð óvart formaður Samfylkingarinnar eftir afsögn Oddnýjar Harðardóttur í kjölfar síðustu kosninga.  

Í minningu Bjartrar framtíðar

Ég viðurkenni fúslega að ég var laumuaðdáandi Bjartrar framtíðar í upphafi. Mér fannst hugmyndin að stofnun fyrirbærisins athyglisverð og markmiðin háleit. En það rann fljótt af mér og aðdáun mín takmarkaðist eftir það við þá Róbert Marshall og Guðmund Steingrímsson bæði vegna þess fyrir hvað þeir tveir standa en ekki síður vegna þess hvað þeir eru skemmtilegir. Svo hættu þeir.

Enn ein ríkisstjórn sjálfstæðisflokksins fallin

Ríkisstjórnir sjálfstæðisflokksins halda hvorki vatni né vindi. Flokknum virðist fyrirmunað að ljúka heilu kjörtímabili. Allar síðustu ríkisstjórnir hans hafa fallið vegna spillingar og fjármálalegrar óstjórnar. Hrunastjórn Geirs Haarde sat í tæp tvö ár. Auðmannastjórn Bjarna Benediktssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar náði þremur árum áður en hún féll. Panamastjórn Bjarna og Sigurðar Inga sat í hálft ár eða svo. Og nú síðast, þegar sjálfstæðisflokkurinn þurfti nánast bara að vinna með sjálfum sér, var líftími ríkisstjórnarinnar 8 mánuðir.

Brestirnir eru línulegir. Þeir hverfast annars vegar um það hvernig flokkurinn umgengst dómskerfið og hins vegar hvernig hann fer með peningavaldið sem kjósendur fela honum aftur og aftur að fara með.

Yfirlýsing


Mynd: Jón Óskar
Forystuskipti urðu á landsfundi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í ársbyrjun 2013 er Katrín Jakobsdóttir var kjörin formaður. Á sama tíma var ég kjörinn varaformaður Vinstri grænna og hef gegnt því embætti síðan. Frá þeim tíma hefur hreyfingin styrkt stöðu sína verulega og eru Vinstri græn í dag helsta hreyfiaflið í íslenskum stjórnmálum. Er það ekki síst að þakka traustri forystu formannsins Katrínar Jakobsdóttur, öflugri sveit þing- og sveitarstjórnarmanna og sterkri málefnalegri stöðu Vinstri grænna.

Um helgina fer fram flokksráðsfundur Vinstri grænna og landsfundur hreyfingarinnar verður haldinn helgina 6. til 8. október næstkomandi. Á þessum tímapunkti tel ég rétt að lýsa því yfir að ég mun ekki gefa kost á mér til varaformennsku á komandi landsfundi.

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS