Þeim verður ekki breytt

Í hvert sinn sem sjálfstæðisflokki eða framsókn tekst að klúðra málum (sem gerist oft)  fara stjórnmálamenn úr öðrum flokkum oft að tala um að nú þurfi stjórnmálin að breytast, rétt eins og að ruglið sé þeim að kenna. Þetta er auðvitað fásinna og fyrst og síðast til merkis um lítið pólitískt sjálfstraust þeirra sem þannig tala.
Hvorki sjálfstæðisflokkurinn né framsókn munu breytast þótt aðrir flokkar geri það. Það er algjörlega ástæðulaust fyrir aðra flokka að fara í naflaskoðun þó þessir tveir flokkar séu gegnsósa af spillingu og óreiðan. Þeim er óeðlið tamt og verður ekki breytt úr þessu.
Það sem þarf að breytast er að kjósendur hætti að fela þessum tveimur flokkum það vald sem þeir hafa til þessa fært þeim og gert þeim þannig kleift að misnota það í eigin þágu.
En það mun tæplega breytast.

 

Þetta er allt frekar kreisí

 Í dag eru tvær vikur til kosninga og línurnar byrjaðar að skýrast frekar en áður. Sjálfstæðisflokkurinn og klofningsframboðið Viðreisn virðast samanlagt ætla að ná upp undir þriðjungi atkvæða ef marka má kannanir. Það er allt of mikið.

Framsóknarflokkurinn og klofningsframboðið hans verða ekki langt frá því að fá fimmtung atkvæða samanlagt samkvæmt sömu könnunum. Það er líka allt of mikið.

Samanlagt virðast þessi fjórir klofningsflokkar fara nálægt því að safna til sín um eða yfir helmingi atkvæða í kosningunum.

Það lenda allir í einhverju

Mér finnst alveg sjálfsagt að banna alla neikvæða umfjöllun um formenn sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar eins og nú hefur verið gert. Það getur bara ruglað fólk. Allir hafa þeir verið drengir góðir og almennilegir við menn og málleysingja. Það er ekki við þá að sakast þó þeir lendi í einhverju óheppilegu af og til. Þannig er bara lífið. Hvað getur Bjarni Benediktsson gert við því þó hann hafi álpast fyrir helbera tilviljun til að færa milljónatugi í heimilisbókhaldinu í örugg skjól rétt fyrir Hrun á meðan aðrir voru ekki eins heppnir? Annað eins hefur nú gerst.
Það lenda allir í einhverju.

Dæmigerð loddaraumræða

Hugmyndir framsóknarmanna um að læsa klónum í lífeyrissjóði launafólks til að nota í allskonar brask er dæmigerð loddaraumræða af þeirra hálfu. Lífeyrissjóðirnir hafa mikilvægu hlutverki að gegna fyrir almenning í landinu. Miklu mikilvægara hlutverki en framsóknarmenn virðast gera sér grein fyrir. Líferyissjóðir eiga að tryggja launþegum lífeyri við starfslok. Þeir eiga að liðsinna launþegum við áföll á lífsleiðinni. Lífeyrissjóðirnir eru eign launþega, samtryggingarsjóður þeirra þar sem launþegar axla ábyrgð hverjir á öðrum. Það er merkilegt að þeir sem hafa beitt sér hvað harðast fyrir lækkun skatta á auðmenn og fyrirtæki á undanförnum árum skuli nú ásælast lífeyri launafólks til að geta efnt kosningaloforð sín. Með því skerða þeir réttindi launafólks og grafa undan samfélagi samábyrgðar.
Látið lífeyrissjóðina í friði.

Á ekkert að tala um Icesave?

Er ekki tilvalið að ræða aðeins um Icesave núna í aðdraganda kosninga? Það mætti t.d. taka fyrir síðasta samninginn sem gerður var við Breta og Hollendinga, þennan sem aldrei var lagður fyrir þing eða þjóð. Þennan sem kostaði aukalega ríflega 50 milljarða króna umfram það sem áður hafði verið samið um. Samninginn sem tæmdi hverja einustu krónu úr tryggingasjóði innstæðueigenda. Samninginn sem gerður var af þeim Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Bjarna Benediktssyni og kom aldrei fyrir almenningssjónir.
Það er líklega um nóg annað að tala.

 

Til í allt – án Bjarna?

Það stefnir í góðan og verðskuldaðan kosningasigur Vinstri grænna síðar í mánuðinum. En flokkurinn á erfitt verk fyrir höndum. Miðað við skoðanakannanir er ljóst að það verður ekki myndið nein vinstristjórn í landinu. Hins vegar gætu kosningarnar skilað ágætlega skipaðri félagshyggjustjórn Vinstri grænna Samfylkingar ásamt leifunum af framsóknarflokknum. Ég hef þó efasemdir um að samanlagt fylgi þessara þriggja flokka nægi til þess að mynda öfluga ríkisstjórn.
Kosningarnar gætu líka skilað okkur hægri-öfgastjórn sjálfstæðisflokks, flokks Sigmundar Davíðs og annarra loddara sem munu ná mönnum á þing. Ég er samt efins um að sjálfstæðisflokkurinn muni leggja í slíka hættuför. Fyrir aðra flokka er sjálfstæðisflokkurinn undir forystu Bjarna Benediktssonar líkt og hættulegur smitberi spillingar, sérhagsmuna, hagsmunagæslu, leyndarhyggju, frændhygli, græðgi og óstjórnar. Það kemur enginn nálægt honum nema með töngum.

Hvorki flókið né erfitt

Ég skil eiginlega hvorki upp né niður í þessu máli. Hvernig getur það gerst að yfirvöld meini ungu fólki aðgang að opinberum skólum? Hvernig má það vera að sextán ára unglingum sem þarfnast aðstoðar umfram aðra er neitað um skólavist? Hvað er átt við þegar sagt er að engin úrræði séu til staðar eða að ráðuneytið leiti lausna í málinu? Er lausnin týnd? Hver týndi henni?
Þetta nær ekki nokkurri átt.
Úrræðið sem sagt er að ekki sé til staðar er fyrir hendi og heitir skóli. Lausnin sem sögð er vera týnd er aðgangur að skóla sem er til staðar. Það eru nægir peningar til að kosta nám þessara ungmenna ef vilji er til þess. Þetta er ekki flókið né erfitt og þarfnast hvorki sérstakra úrræða né nýrra lausna.

Lýsandi vörn fyrir glataðan málstað

Karl Garðarsson, fyrrverandi þingmaður framsóknarflokksins, setti þessa færslu (sjá mynd) inn á feisbúkksíðu sína eftir að ég tók skattaskjólsmál þáverandi forsætisráðherra og flokksbróður hans upp á Alþingi vorið 2016. Það leiddi síðan til þess að ríkisstjórnin féll, boðað var til kosninga og framsóknarflokkurinn rifnaði í tætlur.
Af öllu því rugli sem þetta lið sendi mér af þessu tilefni þykir mér einna vænst um færslu Karls. Hún er svo lýsandi fyrir þann glataða málstað sem þetta lið var að verja.
Svo hefur hún líka elst svona svakalega vel.

 

Loddararnir taka yfir

Loddarar eru að yfirtaka íslensk stjórnmál. Fari svo sem horfir má búast við að flokkar loddara muni fá samanlagt um fjórðung atkvæða í kosningunum í næsta mánuði. Á pari við þá verður svo sjálfstæðisflokkurinn, gegnsýrður af spillingu sem Bjarni Benediktsson mun að öllum líkindum leiða í gegnum verstu kosningar frá stofnun flokksins. Saman gætu þessi pólitísku öfl loddara og spillingar myndað ríkisstjórn eftir kosningar.
Eina leiðin til að koma í veg fyrir það er að vegur Vinstri grænna verði sem mestur í kosningunum. Sem betur fer virðist stór hluti kjósenda gera sér grein fyrir því ef marka má skoðanakannanir.

Klofningsflokkar

Fáir flokkar hafa klofnað jafn oft og rækilega og sjálfstæðisflokkur og framsókn. Saga þeirra er vörðuð endalausum klofnings- og sérframboðum. Á þeim er þó ákveðinn eðlismunur hvað þetta varðar. Klofningur í framsókn hefur þar til nú nánast alltaf verið bundinn við einstaklinga sem fara í sérframboð í einstökum kjördæmum, oftast með tengingu við móðurflokkinn. Sjálfstæðisflokkurinn á hinn bóginn klofnar í fleiri flokka sem bjóða fram í öllum kjördæmum, nú síðast Viðreisn þó dæmi séu um framsóknarklofning þar líka. Það er þó ekki meiri munur á þeim hvað þetta varðar en á kúk og skít.

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS