Davíð sjötugur

Ég sé að margir hafa notað tækifærið til að gera lítið úr Davíð Oddssyni á internetinu í dag í tilefni sjötugsafmælis hans. Það finnst mér óþarfi, næg eru tilefnin til þess utan þessa dags. Davíð er þrátt fyrir allt einn fyrirferðarmesti og jafnframt umdeildasti stjórnmálamaður sögunnar og pólitísk arfleið hans mun vara um langa hríð. Margt af því reyndar ekki til góðs fyrir land og þjóð að mínu mati.
Vonandi hefur dagurinn verið honum og hans fólki ánægjulegur.

 

 

Mynd: Pressphoto.biz

Árni Páll til liðs við stjórnina?

Það var áhugavert að hlusta á Árna Pál Árnason, fyrrverandi formann Samfylkingarinnar, ræða um Brexit í Silfrinu í morgun (byrjar á 55:40). Árni Páll býr yfir ágætri þekkingu á því máli sem og öðru sem snýr að samstarfi landa Evrópu. Umfjöllun hans um málefni Brexit sem og ESB almennt er trúverðug eins og heyra mátti í morgun og kom einnig fram í ágætum greinaflokki hans um áhrif Brexit á Ísland sem hann sendi frá sér undir lok síðasta árs.

Strákarnir okkar

Fyrir stuttu gaf Reykjavíkurborg út bæklinginn „Kynlegar tölur“. Þar kemur m.a. fram að 40 einstaklingar sviptu sig lífi á síðasta ári, þar af 36 karlar. Þetta hefur ekki fengið mikla umfjöllun, ekkert frekar en oft áður. Tíðni sjálfsvíga á Íslandi hefur lengi verið með því hæsta í heiminum (sjá t.d. hérhér og hér ) og er því miður enn.

Endurómur úr fortíðinni

„Ég hef sjálfur ákveðnar hugmyndir. Ég hef lengi talað fyrir því að við eigum að innleiða og taka upp eitt þrep tekjuskatts.“
Óli Björn Kárason, þingmaður sjálfstæðisflokksins.

Skattkerfið sem Óli Björn Kárason, þingmaður sjálfstæðisflokksins, talar hér fyrir hefur áður verið reynt með herfilegum afleiðingum. Það var í aðdraganda Hrunsins, flatt skattkerfi og eitt skattþrep. Það reyndist ekki vel og allra síst þegar raunverulega þurfti á því að halda. Skattatillögur Óla Björns eru endurómur úr fortíðinni, fortíð sem ég hélt satt best að segja að flest okkar hefðu lært eitthvað af.
Það eru augljóslega undantekningar á því.

 

Færeyingar neita að semja

Íslendingar og Færeyingar hafa ekki náð saman um gagnkvæmar veiðiheimildir í lögsögum landanna á árinu 2018. Það er bagalegt að mörgu leyti fyrir báða aðila. Færeyingar hafa lengi haft nokkuð greiðan aðgang að íslenskri lögsögu og talsverðar veiðiheimildir að auki. Á síðasta ári höfðu þeir sem dæmi veiðiheimildir í botnfiski upp á nærri 6 þúsund tonn, þar af 2.400 tonn af þorski og auk þess heimildir til að veiða allt að 30 þúsund tonn af loðnu.

Prófmál á innri styrk ríkisstjórnarinnar

„Við sjáum því miður að í ríkjum í Austur -Evrópu í Póllandi, Ungverjalandi og Rúmeníu hafa verið uppi áþekkar deilur um að pólitísk afskipti af skipun dómara eigi að vera meiri og fagleg áhrif umsagnaraðila eigi að vera minni.“ 
Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands.

Snjóboltinn rúllar af stað

Trond Giske, varaformanni Arbeiderpartiet í Noregi, var í gær vikið úr embætti vegna ásakana um kynferðislega áreitni. Og það er meira í farvatninu (link is external) innan Arbeiderpartiet. Mál Giske  er jafnvel talið eiga eftir að leiða til þess að fleiri sambærileg mál komi upp í norskum stjórnmálum og innan annarra flokka. Snjóboltinn er rétt að byrja að rúlla af stað og safna utan á sig. Ekki er ástæða til að ætla annað en að sambærileg mál  muni koma upp innan stjórnmálaflokka á Íslandi innan skamms.

Tvær ágætar fíl-gúdd ræður

Ávörp forseta Íslands og forsætisráðherra um áramótin voru meinlaus að venju. Það er líka ágætt enda engin ástæða til að stuða fólk á þessum tímamótum. Flestum virðist hafa liðið vel með það sem þau sögðu þó fæstir geti rakið innihaldið. Þetta voru tvær ágætis fíl-gúdd ræður sem hafa fallið í góðan jarðveg í ársbyrjun.
Nákvæmlega eins og það á að vera.

Almenn ánægja með ríkisstjórnina

Mikill og ítrekaður stuðningur við ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur kemur ekki á óvart. Þetta er líka í samræmi við það sem maður skynjar í samfélaginu. Flestir eru ánægðir og hafa trú á ríkisstjórninni. Samkvæmt nýjustu könnun nýtur ríkisstjórnin stuðnings 3/4 hluta kjósenda. Það er umtalsvert meiri stuðningur en samanlagður stuðningur við stjórnarflokkana þrjá og lætur nærri að annar hver kjósandi stjórnarandstöðuflokkanna styðji ríkisstjórnina. Það er ánægjulegt fyrir stjórnarflokkana en um leið hlýtur það að vera umhugsunarefni fyrir stjórnarandstöðuna. Málflutningur hennar hefur greinilega ekki fengið almennan hljómgrunn og ekki einu sinni meðal hennar eigin kjósenda.

Allt meira og minna samkvæmt bókinni

Það hefur verið lítið um óvæntar eða ófyrirséðar upp á komur í þinginu frá því ný ríkisstjórn tók við völdum. Allt meira og minna samkvæmt bókinni. Ég er þó hugsi yfir því á hvaða leið mínir gömlu og góðu félagar í Samfylkinguni eru. Þeir virðast hafa ákveðið að gera Vinstri græn að sínum helsta pólitíska andstæðingi sem eru mikil mistök af þeirra hálfu. Það kann að stafa af óskýrri pólitískri forystu innan þeirra í bland við reynsluleysi nýrra þingmanna. Endurkoma Ágústar Ólafs í stjórnmálin gefur þó vonir um að Samfylkingin muni fljótlega ná að staðsetja sig á hinu pólitíska sviði.
Hér má sjá ágæt yfirlit yfir helstu skattabreytingar sem samþykktar voru á Alþingi fyrir næsta ár. Betri heimild en hjá minnihluta þingsins.

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS