Loddararnir taka yfir

Loddarar eru að yfirtaka íslensk stjórnmál. Fari svo sem horfir má búast við að flokkar loddara muni fá samanlagt um fjórðung atkvæða í kosningunum í næsta mánuði. Á pari við þá verður svo sjálfstæðisflokkurinn, gegnsýrður af spillingu sem Bjarni Benediktsson mun að öllum líkindum leiða í gegnum verstu kosningar frá stofnun flokksins. Saman gætu þessi pólitísku öfl loddara og spillingar myndað ríkisstjórn eftir kosningar.
Eina leiðin til að koma í veg fyrir það er að vegur Vinstri grænna verði sem mestur í kosningunum. Sem betur fer virðist stór hluti kjósenda gera sér grein fyrir því ef marka má skoðanakannanir.
En vika er langur tími í pólitík og enn eru fjórar vikur til kosninga. Sá tími gæti dugað loddurunum til að svíkja kjósendur á sitt band. Það er því brýnna nú en oft áður fyrir almenning að vera á verði gagnvart þeim sem munu beita öllum brögðum til að laða kjósendur til sín. Það sem m.a. einkennir þá frá öðrum er tungulipurð og yfirborðskenndir persónutöfrar, stórmennskuhugmyndir um eigið ágæti og þeir gera ekki meðvitaðan mun á lygi og sannleika.
Látum ekki loddarana taka yfir.
Myndin hér að ofan birtist í Lögreglublaðinu á síðasta ári þar sem vísað er til nokkurra atriða sem lögreglumenn hafa í huga við yfirheyrslu á þeim sem segja hvorki satt né rétt frá.
Þetta er líka ágætt fyrir kjósendur að hafa í huga.