Stjórnlaus einkavæðing í heilbrigðiskerfinu

Þessi yfirlýsing Landlæknis er þeirrar gerðar sem enginn heilbrigðisráðherra vill láta skrifa um sig sé hann ekki blásvartur hægrimaður. Landlæknir heldur því fram að einkavæðing í heilbrigðiskerfinu sé í raun stjórnlaus. Landlæknir segir að hvorki ráðherra, þing eða ríkisstjórn hafi sem stendur nokkra stjórn á því hvert opinber fjármagn rennur í heilbrigðiskerfinu eða hvaða rekstrarform verði ríkjandi í íslensku heilbrigðiskerfi.
Yfirlýsing Landlæknis hlýtur að kalla á skjót viðbrögð stjórnmálamanna og Alþingis.
Þetta er grafalvarlegt mál.

Persónulegir hagsmunir þingmanna

Fjórir þingmenn sjálfstæðisflokksins, allir nefndarformenn þingnefnda, styðja ekki ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Ríkisfjármálaáætlunin er grunnstefna ríkisstjórnarinnar og mikilvægust allra mála hennar. Án þeirrar áætlunar er engin stefna, engin markmið og engin ríkisstjórn. Ríkisstjórnin er því í raun fallin.
Þetta er eitt. Annað er að a.m.k. tveir nefndarformannanna styðja ekki ríkisstjórnina vegna persónulegra hagsmuna sinna að því er best verður séð. Stefna ríkisstjórnarinnar skaðar þá eða fjölskyldur þeirra og samstarfsfólk fjárhagslega.

Dauðalistinn?

Forsætisráðherra vill ekki að lífeyrissjóðirnir fjárfesti í bönkunum. Umhverfisráðherra vill ekki að lífeyrissjóðirnir fjárfesti í einstaka fyrirtækjum.
Hvar vilja ráðherrarnir að lífeyrissjóðir og aðrir fjárfesti? Er einhver listi til innan stjórnarráðsins um fyrirtæki, þóknanleg stjórnvöldum og um þau fyrirtæki sem þeim líkar ekki?
Er dauðalistinn til eftir allt?

 

Lítið látið með staðreyndir

Í þættinum Vikulokin í morgun var m.a. rætt um Vaðlaheiðargöng. Umræðan af hálfu þáttastjórnanda og viðmælenda hans var í grunninn um tvennt hvað göngin varðar. Annars vegar að framkvæmdin hefði verið tekin fram fyrir aðrar framkvæmdir í samgönguáætlun (og þar af leiðandi tafið þær) og hins vegar að ætt hefði verið af stað í verkið nánast án undibúnings. Hvort tveggja er rangt.
Vaðlaheiðargöng hafa ekki haft nein fjárhagsleg áhrif á aðrar vegaframkvæmdir í landinu. Göngin eru ekki á fjárlögum. Ríkið hefur ekki sett eina krónu í framkvæmdirnar. Ríkið hefur aðeins sett hlutafé í hlutafélagið sem sér um framkvæmdina, enda á ríkið tæpan helming í félaginu (átti meirihluta til ársins 2013). Ákvörðun um að fara í þessa framkvæmd byggðist ekki síst á því að umferð um göngin er nægilega mikil til að standa undir kostnaði við þau sem ekki á við um flestar aðrar framkvæmdir.

Pólitískar hreingerningar

Það er ekkert faglegt við boðaða úttekt Jóns Gunnarssonar samgönguráðherra á Samgöngustofu. Þvert á móti er hún eins ófagleg og hugsast getur. Ástæða úttektarinnar er óljós. Markmið hennar sömuleiðis. Hér er fyrst og fremst um rammpólitíska úttekt á opinberri stofnun að ræða, úttekt sem unnin verður af sérstökum pólitískum trúnaðarmönnum sjálfstæðisflokksins og tilgangurinn því pólitískur umfram annað. Líklega er þetta bara byrjunin á pólitískum hreingerningum ríkisstjórnarinnar á opinberum stofnunum.
Það er eitthvað ljótt við það sem hér er að gerast.

Viðskipti ársins!

Ríkisstjórn sjálfstæðisflokks- og framsóknar samdi við erlenda kröfuhafa þannig að kröfuhafarnir afhentu ríkinu Íslandsbanka en héldu eftir Arion banka. Ríkið fékk á móti skuldabréf með veði í bankanum upp á 84 milljarða króna. Samkomulagið gerði síðan ráð fyrir að kröfuhafarnir fengju tíma næstu þrjú árin til að meta stöðuna og ákveða sjálfir framhaldið. Ríkið afsalaði sér þeim rétti.
Nú hafa kröfuhafarnir tekið þá ákvörðun að leysa ríkið út og taka bankann yfir. Það gera þeir vegna þess að þeir telja sig geta grætt enn meira en þeir hafa þegar gert á Íslandi.

Þrjú forgangsmál ríkisstjórnarinnar og eitt til

Það er rétt hjá Kristjáni Þór Júlíussyni menntamálaráðherra að ríkisstjórnin setur menntamál ekki í forgang. En það er rangt hjá honum að forgangsmálin séu heilbrigðis- og velferðarmál. Forgangsmál ríkisstjórnarinnar má flokka í þrennt: lækka skattalækka skatta og lækka skatta . Og ef nefna má eitt mál til viðbótar þá væri það skattalækkun  .

Úr einum höftum í önnur

Í nýjustu útgáfu Fjármálastöðugleika Seðlabankans er m.a. bent á að efnahagslífinu geti stafað hætta af bættu aðgengi að erlendum lánamörkuðum ef ekki verði gripið til ráðstafana. Í ritinu hvetur Seðlabankinn til þess að Alþingi setji lög sem komi í veg fyrir að þeir sem hafi tekjur í íslenskri krónu eða séu eignalitlir geti skuldsett sig í erlendri mynt. Hinir fá að gera það sem þeir vilja.

Hvað heldur lífinu í ríkisstjórninni?

Tveir stjórnarþingmenn standa ekki heilir að baki stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og einn ráðherra gerir það með óbragð í munninum.
Í dag var fjármálastefna ríkisstjórnarinnar samþykkt af minnihluta þingsins eða 30 þingmanna af 63 mögulegum. Það er fáheyrt ekki síst þegar um er að ræða jafn stefnumarkandi mál og þetta, mál sem í raun leggur grunn að öllum öðrum málum.
Hvers konar ríkisstjórn er það sem nýtur ekki stuðnings úr eigin röðum?
​Hvaða tilgang hefur slík ríkisstjórn og hvað heldur í henni lífinu?

Góð viðbót í makríl

Ákveðið hefur verið að auka veiðar á makríl um 20 þúsund tonn í sumar sem er um 13% aukning frá síðasta ári. Þetta er talsverð viðbót sem mun skipta sjávarútvegsfyrirtæki talsverðu máli. Samkvæmt upplýsingum á vef Fiskistofu fengu skip HB-Granda úthlutað mestum heimildum í fyrra eða ríflega 19 þúsund tonnum sem munu þá aukast um nærri 2.500 tonn í ár. Samherji fékk úthlutað ríflega 17 þúsund tonnum í fyrra og Síldarvinnslan rúmum 13 þúsund tonnum. Makrílheimildir þessara tveggja fyrirtækja munu því aukast samtals um 4 þúsund tonn í sumar.
Svo er bara að vona að veiðarnar gangi vel fyrir sig og að verðmætið verði sem mest!

 

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS