Góður pólitískur tónn

Það var gaman að hlusta á Loga Einarsson, formann Samfylkingarinnar, í Vikulokunum á RÁS 1 í morgun og betra hljóð í honum gagnvart ríkisstjórninni en hingað til. Ef vel var hlustað mátti greina eftirsjá hjá honum yfir því að hafa ekki leitt Samfylkinguna í ríkisstjórn við hliðina á Vinstri grænum. Það er skiljanlegt. Ég sakna líka Samfylkingarinnar að mörgu leyti enda margt afbragðsfólk þar að finna sem fengur er í að hafa með sér í liði við landsstjórnina. Kannski verður það síðar?
Hvað sem því líður þá var góður pólitískur tónn í formanni Samfylkingarinnar sem gefur von um góðan vilja til samstarfs við ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.

 

Notaleg pólitísk aðventa

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur byrjar vel ef marka má kannanir. Allur almenningur virðist sáttur við ríkisstjórnina og bindur vonir við að hún muni leiða til meiri félagslegs -og pólitísks stöðugleika en ríkt hefur frá Hruni. Þrátt fyrir að augljóst yrði að fyrsta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar yrði að stærstum hluta byggt á frumvarpi fyrri stjórnar, má augljóslega merkja þar jákvæðar breytingar og fingraför Vinstri grænna. Gagnrýni pólitískra andstæðinga er bæði veik og ber vitni um tætingslega fimm flokka stjórnarandstöðu. Fimmflokkurinn er ósamstíga og ólíklegur til að höfða til almennings í jólamánuðinum þegar fólk er með hugann við annað en pólitík.

Nýting auðlindar og umhverfismál

Sjávarútvegurinn hefur að mörgu leyti verið leiðandi í umhverfismálum á síðustu áratugum. Þessi hlið greinarinnar hefur hins vegar ekki fengið mikla athygli enda umræða um sjávarútveginn oftast á öðrum nótum.

Vel skipað pláss

Hér þykir mér vel skipað í pláss. Helga Vala Helgadóttir er að mínu mati líkleg til að verða góður formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis sem er ein af allra mikilvægustu nefndum þingsins. Það verður gaman að fylgjast með störfum Helgu Völu í þessu nýja hlutverki og mér segir svo hugur að nefndin muni fá aukið vægi og hafa meiri áhrif en áður undir hennar stjórn.
Ekki veitir af.

Kampavínsvísitala Þorsteins

Það er ekkert nýtt að Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, mæli hagsæld þjóðarinnar. Það gerði hann líka sem framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA bls. 27) ásamt núverandi formanni Viðreisnar. Nú telur Þorsteinn að ný ríkisstjórn hafi blásið til slíkrar veislu að kampavínsneysla muni ná fyrri hæðum frá dýrðardögum SA en nú reyndar á öðrum forsendum.

Ríkisstjórn stöðugleika og sátta

Fyrir sléttum þremur vikum skrifaði ég þennan pistil sem fékk talsverða athygli. Núhefur þetta gengið eftir að mestu. Samkvæmt stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar  Vinstri grænna, sjálfstæðisflokks og framsóknarflokks sem tók við völdum í dag verður ekki ráðist í umfangsmiklar kerfisbreytingar á næstu árum. Hún mun einbeita sér að nokkrum stórum málum s.s. heilbrigðis-, velferðar- og menntamálum auk samgöngumála en láta annað ýmist bíða betri tíma og leggja önnur mál jafnvel alveg til hliðar. Sáttmálinn í heild sinni er þó frekar framsækinn og vekur góðar vonir um jákvæða þróun í okkar stærstu málum á næstu árum og áratugum.

Ríkisstjórn Vinstri grænna tekur við völdum

Það er ánægjulegt að sjá hve víðtækur stuðningur er innan flokksráðs Vinstri grænna við ríkisstjórnarsamstarfið. Um 80% flokksráðsmanna greiddu atkvæði með þeim sáttmála sem gerður hefur verið á milli flokkanna þriggja og aðeins 15 fulltrúar lögðust gegn því að Vinstri græn færu í ríkisstjórn.

Fyrirsjánleg viðbrögð stjórnarandstöðunnar

Viðbrögð stjórnarandstöðunnar við stjórnarsáttmála nýrrar stjórnar (sem hefur enn ekki verið opinberaður) eru fyrirsjáanleg og grunn. Þau undirstrika hins vegar vel hvað minnihlutinn á þingi er sundurleitur hópur, tvístraður og ósamstíga. Það mun gera þingstörfin og samstarf milli stjórnar og stjórnarandstæðinga erfiðari og flóknari en annars, sem er auðvitað áhyggjuefni.

Þetta verður góð ríkisstjórn

Þetta er í grófum dráttum eins og lýst er hér. Til viðbótar þurfa svo þingflokkar stjórnarflokkanna að samþykkja samstarfið enda eru það þingmenn þeirra sem munu tala máli ríkisstjórnarinnar á Alþingi og sjá til þess að stefnumál hennar nái fram að ganga. Það er ekki við öðru að búast en að stofnanir flokkanna þriggja og þingflokkar þeirra sömuleiðis samþykki með miklum meirihluta stjórnarsamstarfið. Það er líka mikill spenningur í landinu fyrir þeirri ríkisstjórn sem nú er að verða til og hún mun njóta almenns stuðnings víða í þjóðfélaginu.
Þetta verður góð ríkisstjórn.

 

 

Stjórnarandstaðan fellur á fyrsta prófinu

"Fjárlagafrumvarp fyrir næsta fjárlagaár skal leggja fram á fyrsta fundi haustþings, sbr. 42. gr. stjórnarskrárinnar.“

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS