Forsætisráðherra sagði í áramótaávarpi sínu að hækka þyrfti lægstu laun í landinu og bæta kjör þeirra verst settu. Þetta er alger viðsnúningur frá því fyrir jól þegar ríkisstjórnin hafnaði kröfum ASÍ um aðkomu ríkisins að því að bæta hag þessa hóps eins og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, bendir réttilega á.
Í því ljósi hlýtur það að vera eðlilegt að annað af tvennu gerist í framhaldinu:
1: Að atkvæðagreiðslu um kjarasamningana verði frestað og ríkisstjórninni þannig gefið svigrúm til að koma að þeim að nýju.
2: Að samningsaðilar hvetji launafólk og atvinnurekendur til að fella samningana og sest verði að nýju við samningaborðið - með stjórnvöldum.
Forystumenn ASÍ og SA hljóta að ræða við forystumenn ríkisstjórnarinnar um breyttar áherslur stjórnarflokkanna í þessum efnum og hvernig spila eigi úr þeirri stöðu sem komin er upp svo vilji ríkisstjórnarinnar til að bæta kjör þeirra lægst launuðu nái fram að ganga.
Annars mætti líta svo á að samningsaðilar litu á yfirlýsingar forsætisráðherra sem hverja aðra markleysu.