Úrtölumennirnir höfðu rangt fyrir sér

Eins og margir muna hrundi allt íslenska bankakerfið haustið 2008. Seðlabankinn sjálfur fór á hliðina og fyrirtæki og heimili fóru í þrot þúsundum saman. Ísland  einangraðist á alþjóðavettvangi, rúið öllu trausti og fæstir trúðu því að landið myndi ná sér aftur á strik.
Í hópi úrtölumanna voru forystumenn núverandi ríkisstjórnar sem dag hvern, organdi af bræði, reyndu að draga kjarkinn úr þjóðinni og telja henni trú um að allt væri verra en það þyrfti að vera og myndi bara halda áfram að versna.
Á ráðstefnu Í MARK sem haldin var í dag kom fram að landsframleiðsla á Íslandi væri nú áþekk því sem var um það leyti sem bankakerfið hrundi haustið 2008. Það kom jafnframt fram að bataskeiðið hafi hafist í ársbyrjun 2010, hægfara í byrjun, en síðan vaxið ásmegin og hafi á árinu 2013 verið með mesta móti í samanburði við önnur lönd.
Þetta er auðvitað rétt eins og allir vita. Okkur tókst ekki aðeins að forðast fullkomna eyðileggingu heldur hófum við uppbyggingu á nýjum grunni. Batinn varð kröftugri en nokkur reiknaði með og meiri en í öðrum löndum. Á þessum tíma var hins vegar ekki jarðvegur fyrir þessa umræðu þrátt fyrir tilraunir í þá veru.
Úrtölumennirnir áttu sviðið.
En höfðu rangt fyrir sér.
Eins og alltaf.