Þetta er stórmerkilegt mál sem á líklega eftir að hafa verulegar afleiðingar í för með sér. Þessi einkavæðing fór fram á tímabili þriðju ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, samstarfsstjórnar sjálfstæðis- og framsóknarflokks. Lykilfólkið í þessu braski voru, auk Davíðs, þau Halldór Ásgrímsson sem er látinn, Geir H Haarde fjármálaráðherra og Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Nú lítur út fyrir að þetta fólk hafi leynt almenning nauðsynlegum upplýsingum um einkavæðingu Búnaðarbankans sem Umboðsmaður Alþingis hefur nú fengið í hendur. Alþingi sem enn þráast við að láta rannsaka einkavæðingu bankanna, sem var þó samþykkt að gera á nú ekki margar undankomuleiðir eins og Ögmundur Jónasson hefur bent á.
Davíð Oddsson er í framboði til forseta Íslands
Geir H Haarde er sendiherra Íslands í Washington
Valgerður Sverrisdóttir rak síðast þegar ég vissi ferðaþjónustu á Lómatjörn
Það er auðvelt fyrir fjölmiðla að nálgast allt þetta fólk, spyrja nauðsynlegra spurninga og upplýsa okkur hin um svörin. Við eigum rétt á að vita hvernig þetta fólk fór fram við einkavæðingu bankanna og hvaða hagsmunir réðu þar ferð.
Myndin hér að ofan er frá undirritun á „sölu“ á Landsbanka Íslands til Samson -hópsins á sínum tíma.
Það muna allir hvernig það fór á endanum - er það ekki?