Einn góðan sólskinsdag fyrir nokkrum árum var ég mættur með stunguspaða, skóflu og hjólbörur í þeim tilgangi að drepa burknana hennar Þuríðar minnar. En ég hætti við. Guggnaði þegar á hólminn var komið og horfðist í „augu“ við fórnarlambið. Ég fæ enn martraðir yfir því sem hefði getað gerst þennan dag norður á Akureyri.
Til að gera stutta sögu styttri hef ég síðan bundist burknunum svo sterkum tilfinningalegum böndum að ég sakna þeirra þegar ég bregð mér frá og stend mig að því að skoða myndir af þeim í tölvunni á ferðalögum. Skemmtilegast finnst mér að fylgjast með hvernig þeir koma undan vetri og teygja sig mót sumrinu. Þessar myndir tók ég af blessuðum burknunum yfir sex daga frá 23. maí til 28. maí, sem sýnir vel dugnaðinn í þeim og hversu vel þeir taka á móti sumrinu. Ef vel er að gáð má jafnvel greina bros á sumum þeirra.
Þvílík fegurð!