Einu sinni heyrði ég eftir lögreglumanni í plássi úti á landi að þar á bæ hefðu menn tekið ákvörðun um að tilkynna öll fíkniefnabrot sem upp komst á svæðinu. Fram að því höfðu slík mál farið heldur lágt og ekki þótt gott til afspurnar að upp kæmist um slík mál. Að margra mati gæti það sett ljótan blett á bæinn að útvarpa fréttum af sölu og neyslu fíkniefna. Með því að senda út tilkynningu um hvert einasta mál sem upp komst voru hinsvegar send út skilaboð til fíkniefnasamfélagsins að það væri engin óhultur við slíka iðju í plássinu og lögreglan væri vel vakandi yfir slíkum málum.
Það er því nákvæmlega hárrétt hjá Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra þegar hann segir að aðgerðir lögreglunnar gegn glæpagengjum séu skýr skilaboð út í þann heim að hótanir og ofbeldi verði aldrei þolað, ekki undir neinum kringumstæðum.
Aðgerðir lögreglunnar að undanförnu til að uppræta glæpastarfsemi eru líka skýr skilaboð frá stjórnvöldum, ekki síst lögreglunni, að gripið verði til viðeigandi aðgerða til að koma í veg fyrir að skipulögð glæpastarfsemi skjóti rótum fastar hér á landinu en hún hefur þegar gert. Markmiðið er að uppræta þennan ófögnuð að fullu. Orð þar um og efndir í aðgerðum vitna um viljann til verksins.
Við erum komin langan frá pappalögguráðherrum fyrri tíma.
Sem betur fer.