Almenn ánægja með ríkisstjórnina

Mikill og ítrekaður stuðningur við ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur kemur ekki á óvart. Þetta er líka í samræmi við það sem maður skynjar í samfélaginu. Flestir eru ánægðir og hafa trú á ríkisstjórninni. Samkvæmt nýjustu könnun nýtur ríkisstjórnin stuðnings 3/4 hluta kjósenda. Það er umtalsvert meiri stuðningur en samanlagður stuðningur við stjórnarflokkana þrjá og lætur nærri að annar hver kjósandi stjórnarandstöðuflokkanna styðji ríkisstjórnina. Það er ánægjulegt fyrir stjórnarflokkana en um leið hlýtur það að vera umhugsunarefni fyrir stjórnarandstöðuna. Málflutningur hennar hefur greinilega ekki fengið almennan hljómgrunn og ekki einu sinni meðal hennar eigin kjósenda.

Allt meira og minna samkvæmt bókinni

Það hefur verið lítið um óvæntar eða ófyrirséðar upp á komur í þinginu frá því ný ríkisstjórn tók við völdum. Allt meira og minna samkvæmt bókinni. Ég er þó hugsi yfir því á hvaða leið mínir gömlu og góðu félagar í Samfylkinguni eru. Þeir virðast hafa ákveðið að gera Vinstri græn að sínum helsta pólitíska andstæðingi sem eru mikil mistök af þeirra hálfu. Það kann að stafa af óskýrri pólitískri forystu innan þeirra í bland við reynsluleysi nýrra þingmanna. Endurkoma Ágústar Ólafs í stjórnmálin gefur þó vonir um að Samfylkingin muni fljótlega ná að staðsetja sig á hinu pólitíska sviði.
Hér má sjá ágæt yfirlit yfir helstu skattabreytingar sem samþykktar voru á Alþingi fyrir næsta ár. Betri heimild en hjá minnihluta þingsins.

Vinsældir ríkisstjórnar Katrínar

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur nýtur mikils og almenns stuðnings meðal þjóðarinnar eins og komið hefur ítrekað fram í könnunum, t.d. hér  og hér. Margir hafa líka miklar væntingar  til ríkisstjórnarinnar sem hún á eftir að standa undir, enda aðeins örfáir dagar frá því að hún tók við völdum. Þessar miklu vinsældir eru ekki til komnar vegna þess að Sigríður Andersen er dómsmálaráðherra eða vegna þess að Bjarni Benediktsson hafi mikið traust meðal kjósenda. Heldur betur ekki. Vinsældirnar má heldur ekki rekja til fyrstu fjárlaga ríkisstjórnarinnar eða aðgerða hennar almennt á þeim fáu dögum sem hún hefur starfað. Langt því frá.

Alþingi kært vegna misskilnings

Í byrjun árs vildi þáverandi félagsmálaráðherra ógilda kosningar í nefndir og ráð á vegum Alþingis vegna kynjahalla. Það var auðvitað ekki gert, enda um löglega kosningu að ræða.
Nú hefur Kvenréttindafélag Íslands kært Alþingi vegna kosninga í nefndir og ráð þingsins. Félagið vill að kosningin verði ógild og kosið aftur þar til félaginu líkar niðurstaðan.

Horfandi á Silfrið

Horfandi á Silfrið kemur þetta upp í hugann:
Ég hef dýpri skilning á því en áður á þeirri ákvörðun Bjarna Benediktssonar að halda Páli Magnússyni utan ríkisstjórnar.
Meðalaldur fjárlaganefndarmanna er 52 ár sem gerir þau öll að stútungskörlum og -kerlingum.
Píratar eiga talsvert í land í pólitíkinni.
Ágúst Ólafur hefur átt brillíant endurkomu í stjórnmálin og er líklegur næsti formaður Samfylkingarinnar – ef hann nennir.

 

Góður pólitískur tónn

Það var gaman að hlusta á Loga Einarsson, formann Samfylkingarinnar, í Vikulokunum á RÁS 1 í morgun og betra hljóð í honum gagnvart ríkisstjórninni en hingað til. Ef vel var hlustað mátti greina eftirsjá hjá honum yfir því að hafa ekki leitt Samfylkinguna í ríkisstjórn við hliðina á Vinstri grænum. Það er skiljanlegt. Ég sakna líka Samfylkingarinnar að mörgu leyti enda margt afbragðsfólk þar að finna sem fengur er í að hafa með sér í liði við landsstjórnina. Kannski verður það síðar?
Hvað sem því líður þá var góður pólitískur tónn í formanni Samfylkingarinnar sem gefur von um góðan vilja til samstarfs við ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.

 

Notaleg pólitísk aðventa

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur byrjar vel ef marka má kannanir. Allur almenningur virðist sáttur við ríkisstjórnina og bindur vonir við að hún muni leiða til meiri félagslegs -og pólitísks stöðugleika en ríkt hefur frá Hruni. Þrátt fyrir að augljóst yrði að fyrsta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar yrði að stærstum hluta byggt á frumvarpi fyrri stjórnar, má augljóslega merkja þar jákvæðar breytingar og fingraför Vinstri grænna. Gagnrýni pólitískra andstæðinga er bæði veik og ber vitni um tætingslega fimm flokka stjórnarandstöðu. Fimmflokkurinn er ósamstíga og ólíklegur til að höfða til almennings í jólamánuðinum þegar fólk er með hugann við annað en pólitík.

Nýting auðlindar og umhverfismál

Sjávarútvegurinn hefur að mörgu leyti verið leiðandi í umhverfismálum á síðustu áratugum. Þessi hlið greinarinnar hefur hins vegar ekki fengið mikla athygli enda umræða um sjávarútveginn oftast á öðrum nótum.

Vel skipað pláss

Hér þykir mér vel skipað í pláss. Helga Vala Helgadóttir er að mínu mati líkleg til að verða góður formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis sem er ein af allra mikilvægustu nefndum þingsins. Það verður gaman að fylgjast með störfum Helgu Völu í þessu nýja hlutverki og mér segir svo hugur að nefndin muni fá aukið vægi og hafa meiri áhrif en áður undir hennar stjórn.
Ekki veitir af.

Kampavínsvísitala Þorsteins

Það er ekkert nýtt að Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, mæli hagsæld þjóðarinnar. Það gerði hann líka sem framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA bls. 27) ásamt núverandi formanni Viðreisnar. Nú telur Þorsteinn að ný ríkisstjórn hafi blásið til slíkrar veislu að kampavínsneysla muni ná fyrri hæðum frá dýrðardögum SA en nú reyndar á öðrum forsendum.

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS