Uppgjör Síldarvinnslunnar hf. fyrir árið 2012 sýnir ekki bara mjög góða afkomu fyrirtækisins heldur líka framtíðarsýn eigendanna.
Byrjum á afkomunni. Fyrirtækið hagnaðist um 9,6 mia.kr. á árinu 2012. Það er samsvarandi upphæð og ríkissjóður setur í rekstur Háskólans á Akureyri, sjúkrahússins á Akureyri, Heilbrigðisstofnunar Austurlands, Verkmenntaskólans í Neskaupsstað, Menntaskólans á Egilsstöðum og sýslumannsembættisins á Eskifirði – til samans.
Eiginfjárhlutfall SVN er 59% (eigið fé/eignum) og fyrirtækið greiddi 3,1 mia.kr. í ýmiss konar opinber gjöld og skatta.
Þetta er engin smá afkoma og fá dæmi um annað eins hér á landi.
Fjárfestingar fyrirtækisins vekja einnig athygli. Fyrir það fyrsta fjárfestir fyrirtækið í sjálfu sér en ekki í óskyldum rekstri. Fjárfestingar miðast við að auka hagkvæmni, tækni og skipastól og þar með að hámarka verð á afurðum. Fjárfestingar SVN á síðasta ári námu 3,1 milljörðum króna auk þess sem fyrirækið keypti Berg-Hugin frá Vestamannaeyjum. Þetta harmonerar illa við fullyrðingar stjórnmálamanna um litla og jafnvel enga fjárfestingu í sjávarútvegi. Það er sem betur fer ekki raunin þegar að er gáð eins og ég hef áður bent á, t.d. hér og hér. Sýn eigenda SVN er önnur. Þeir fjárfesta í framtíðinni.
Aðalfundur SVN samþykkti að greiða eigendum 30% arð af hagnaði, eða 2,1 mia.kr. Aðaleigendur Síldarvinnslunnar eru annars vegar Samherji með 45% eignarhlut og hins vegar Gjögur með 34% hlut.
Góð afkoma Síldarvinnslunnar er fagnaðarefni. Hún sýnir betur en annað hvað sjávarútvegurinn stendur styrkum fótum og hvaða augum hann lítur framtíðina. Síldarvinnslan er afburðafyrirtæki, rekið af fólki sem stendur öðrum framar í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja.
Hvað sem hver segir.