Djöfullinn danskur ...

Við höfum ekki góða reynslu af Dönum. Eða er einhver búin að gleyma þessu, svo dæmi sé tekið. Og þeir halda áfram að böggast í okkur, saklausum. Eins og þeir hafi ekkert þarfara að gera.

Seglum hagað eftir vindi

Þeir mega eiga það félagar mínir í sjálfstæðisflokknum að þeir eru yfirleitt auðlesnir og skýrir í framsetningu mála sinna. Það vefst yfirleitt ekki fyrir neinum hvað þeir vilja. En svo skripla þeir stundum á skötu í þeim efnum eins og sjá má á mismunandi yfirlýsingum þeirra um skuldamál heimilanna að undanförnu.

Tryggvi Þór Herbertsson telur ekki vera hægt að fara í flatan niðurskurð skulda á meðan Kristján Þór Júlíusson telur það vel færa leið og Illugi Gunnarsson segir það í besta máta mjög umdeilanlega aðgerð.

Það virðist því hver þeirra haga seglum eftir vindi þegar að erfiðu málunum kemur.

Þrengir að Eimreiðinni

Úr Hæstaréttardómi í máli Baldurs Guðlaugssonar:

„Ákærði, sem er fæddur árið 1946, er lögfræðingur að mennt og starfaði sem lögmaður frá árinu 1978. Samhliða lögmannsstörfum sat hann í stjórnum ýmissa fyrirtækja, auk þess sem hann var einn stofnenda nokkurra félaga, sem störfuðu á sviði viðskipta með fjármálagerninga. Hann var einn af stofnendum Kaupþings hf. árið 1982 og formaður stjórnar þess félags í upphafi. Hann var jafnframt einn stofnenda Hlutabréfamarkaðarins hf. árið 1985 og Hlutabréfasjóðsins hf. 1986 og var formaður stjórna beggja þessara félaga í upphafi. Ákærði var skipaður ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu á árinu 2000. Hann hefur upplýst að á þeim tíma hafi hann átt hlutafé í Hf. Eimskipafélagi Íslands.“

Naflaskoðun

Ég sá heilsíðuauglýsingu frá Landssamtökum lífeyrissjóða í blaði í dag sem  hljóðaði efnilega á þann veg að tap sjóðanna væri minniháttar og auðveldlega hefði verið hægt að gera miklu verr. Þetta mun vera nefnt í samhengi við skýrsluna góðu sem kom út á dögunum. Það kom líka fram í auglýsingunni að stjórnendur sjóðanna hefðu ástundað naflaskoðun síðustu misserin og væru til í slaginn aftur. Það gangi bara allt of hægt hjá stjórnvöldum að skapa sjóðunum aftur ákjósanleg skilyrði til umsvifa.

Í því sambandi varð mér hugsað til Lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna og stöðu hans út frá tryggingafræðilegum pælingum. Hún er ekkert svakalega góð eins og sjá má á myndinni hér að ofan (smella á myndina til að stækka hana). Það er ekki ólíklegt að starfsmenn ríkisins og velunnarar ríkissjóðs þurfi að fara að kíkja á naflann á sér og jafnvel hverjir hjá öðrum varðandi þau mál.

Rétt eins og hinir vammlausu stjórnendur lífeyrissjóðanna hafa gert.

Gríðarleg andstaða við jarðgöng

Þorri þjóðarinnar leggst gegn fyrirhugaðri jarðgangagerð samkvæmt könnun sem DV hefur gert. Þar kemur fram að 65,1% þjóðarinnar er andvígur framkvæmdunum á meðan aðeins um fjórðungur telur rétt að ráðast í gerð gagnanna.

Þetta er vissulega mikið áfall fyrir þá sem hafa talið að gerð jarðganganna myndu leiða til góðs fyrir samfélagið, auka öryggi í umferðinni, tengja saman byggðir, draga úr eldsneytisnotkun og þar með útblæstri, spara gjaldeyri, minnka eldsneytiskostnað bíleigenda og auðvelda fólki að ferðast um landið sitt, svo fátt eitt sé nefnt.

Miðað við þessar niðurstöður má telja ólíklegt að af framkvæmdunum verði og ekki við öðru að búast en farið verði að vilja mikils meirihluta þjóðarinnar og hætt við þessa fyrirhugðu framkvæmd.

Hér má sjá könnun DV.

Traustur vinur

Í gær upplýsti þingmaður sjálfstæðisflokksins um fólskulega árás Samfylkingarinnar á norðlenskan prédikara. ,,Dauði er margskonar, dauði er ekki bara veraldlegur heldur líka andlegur“ sagði þingmaðurinn af því tilefni, í tilfinnaþrunginni ræðu vini sínum til varnar.

Það er margt til í því hjá honum eins og dæmin sanna – og blasa reyndar við okkur – allt of víða.

Hæstiréttur að hálfu ...

Alvarlegar afleiðingar af því kunningja- og klíkusamfélagi sem innleitt var hér á landi á sínum tíma undirforystu sjálfstæðisflokksins eru enn að koma í ljós. Helmingur dómara í Hæstarétti hefur nú lýst sig vanhæfa til að dæma í sakamáli tengdu Hruninu – vegna kunningsskapar við hinn ákærða.

Það segir meira en margt annað um hvernig sjálfstæðisflokknum tókst að bora sig inn í stjórnkerfið allt í valdatíð sinni, þegar sjálfur Hæstiréttur er að hálfu ófær um að dæma í brotamálum Hrunsins.

Flokkurinn eru undir og yfir og allt um kring – jafnt á sakamannabekknum og dómarasætinu.

Höfuðsyndirnar átta

Höfuðsyndir hinna kristnu (dauðasyndirnar sjö) eru hroki, öfund, reiði, þunglyndi, ágirnd, ofát og munúðlífi. Einhver áhöld hafa verið uppi um þunglyndið sem hefur verið látin víkja fyrir letinni hin síðari ár.

Nú hefur samkynhneigð fengið stöðu áttundu dauðasyndarinnar eins og kunnugt er.

Það er þekkt að hinar fornu höfuðsyndir bera syndarana yfirleitt ofurliði án teljandi hjálpar.

Enn er hinsvegar óljóst hvernig þeirri áttundu verður fylgt eftir til enda.

Æ sér gjöf til gjalda ...

Góður díll.

Ólafur Ólafsson fær bankann - framsókn fær húsið

Allir glaðir!

Pólitísk siðbót

Pólitísk siðbót hefur orðið í Kópavogi. Hún felst í því fjölskyldumaðurinn Gunnar Birgisson og Kópavogsborgarinn Ómar Stefánsson voru færðir til valda að nýju af þeim sem sögðust alls ekki vilja hafa þá við stjórnvölinn. Þeir félagar Gunnar og Ómar virðast hinsvegar eiga ágæta samleið á ýmsum sviðum og því ekki við öðru að búast en að þeir muni ná vel saman hér eftir sem hingað til. Það þarf allavega ekki að óttast að þeir láti almennar leikreglur stöðva sig enda eiga reglur ekki alltaf við þegar um slíka höfðingja er að ræða.

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS