Úr Hæstaréttardómi í máli Baldurs Guðlaugssonar:
„Ákærði, sem er fæddur árið 1946, er lögfræðingur að mennt og starfaði sem lögmaður frá árinu 1978. Samhliða lögmannsstörfum sat hann í stjórnum ýmissa fyrirtækja, auk þess sem hann var einn stofnenda nokkurra félaga, sem störfuðu á sviði viðskipta með fjármálagerninga. Hann var einn af stofnendum Kaupþings hf. árið 1982 og formaður stjórnar þess félags í upphafi. Hann var jafnframt einn stofnenda Hlutabréfamarkaðarins hf. árið 1985 og Hlutabréfasjóðsins hf. 1986 og var formaður stjórna beggja þessara félaga í upphafi. Ákærði var skipaður ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu á árinu 2000. Hann hefur upplýst að á þeim tíma hafi hann átt hlutafé í Hf. Eimskipafélagi Íslands.“
„Í fyrsta lagi vísar ákæruvaldið til upplýsinga um þá kröfu breska fjármálaeftirlitins að innstæður á Icesave-reikningum útibús Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi yrðu fluttar í breskt dótturfélag ásamt hluta af eignum bankans og upplýsingar um erfiðleika bankans á því að verða við kröfunni. Þessar upplýsingar hafi verið til umfjöllunar á fundum samráðshópsins 22. júlí til 16. september 2008. Fallist er á með héraðsdómi að upplýsingar þessar séu nægjanlega tilgreindar og nægilega nákvæmar. Landsbanki Íslands hf. hafði ekki gert þær opinberar og ákærði var bundinn trúnaði um þær. Þær vörðuðu auk þess miklu um það hvernig Landsbanka Íslands hf. tækist að komast í gegnum þá erfiðleika, sem hann stóð frammi fyrir. Fyrir lá krafa um að bankinn flytti umtalsverðar eignir til Bretlands, sem hann gat ekki orðið við, bæði vegna þess að eignir voru ekki tiltækar og einnig vegna þess að slík tilfærsla eigna hefði stofnað í hættu fjármögnunarsamningum, sem bankinn hafði gert. Ákærði fékk ótvíræðar upplýsingar um þetta á fundi hans með bankastjórum Landsbanka Íslands 13. ágúst 2008, en þær voru til þess fallnar að hafa marktæk áhrif á verð hluta í bankanum og hefðu án efa haft áhrif á fjárfestingarákvarðanir þeirra sem veltu fyrir sér kaupum á slíkum hlutum.“
Í öðru lagi: „Fyrir liggur að fjármunir, sem lagðir voru á nefnda Icesave-reikninga í Bretlandi og Hollandi, voru einn mikilvægasti þáttur í að fjármagna starfsemi Landsbanka Íslands hf., sem gagngert hafði verið stefnt að eftir þá erfiðleika sem bankinn lenti í á árinu 2006. Fallist er á með ákæruvaldinu að sannað sé með gögnum málsins að fram hafi verið komin krafa frá breska fjármálaeftirlitinu um að sett yrði áðurgreint hámark á samanlagðar innstæður Icesave-reikninga þar í landi. Einnig er ljóst að innstæðurnar voru á tímabili um sumarið 2008 orðnar um 4.800.000.000 sterlingspund. Því var sennilegt að ákvörðun um hámark hefði mikil áhrif til hins verra á fjármögnun bankans, einkum þar sem lántökur á alþjóðlegum lánamörkuðum fjármálafyrirtækja voru á þessum tíma afar erfiðar. Þótt bankinn teldi sér ekki skylt að verða við slíkri kröfu, liggur fyrir, meðal annars með framburði K fyrir dómi og við rannsókn sérstaks saksóknara, að bankinn taldi sig ekki eiga þann kost að standa gegn henni. Um allt þetta hlaut ákærða vera kunnugt. Upplýsingar þessar voru nægilega tilgreindar og nákvæmar og áhrif þeirra á verðmæti hluta í Landsbanka Íslands hf. marktæk með þeim hætti sem lýst er í 2. gr. reglugerðar nr. 630/2005. Þessar upplýsingar höfðu heldur ekki verið gerðar opinberar. Verða þær því taldar innherjaupplýsingar.“
"Í þriðja lagi heldur ákæruvaldið því fram að upplýsingar, sem ákærði bjó yfir um að seðlabanki Hollands hygðist stöðva frekari innlán á Icesave-reikninga þar í landi og kynntar voru á fundi samráðshópsins 4. september 2008, væru innherjaupplýsingar. Upplýsingar sem hér um ræðir voru veittar af forstjóra Fjármálaeftirlitsins á fundi í samráðshópnum framangreindan dag, en honum hafði verið kynnt þessi afstaða í heimsókn hans til eftirlitssviðs hollenska seðlabankans fáeinum dögum áður. Hann upplýsti einnig að hollensk yfirvöld hefðu rætt um að stjórna þyrfti ,,niðurbremsuninni“ á innstæðum þessara reikninga. Fallist er á með héraðsdómi, að sannað sé, að upplýsingar þessar uppfylli framangreind skilyrði laga til að teljast innherjaupplýsingar. Þær höfðu heldur ekki verið gerðar opinberar."
"Í fjórða lagi er vísað til upplýsinga sem ákærði fékk á fundi með fjármálaráðherra Bretlands 2. september 2008. Þótt þær upplýsingar, sem komu fram á þessum fundi, hafi flestar komið fram áður, svo sem upplýsingar um að flytja innstæður á Icesave-reikningum yfir í dótturfélag í Bretlandi, kom skýrt fram hve alvarlega bresk stjórnvöld töldu stöðuna vera, einkum að því er laut að Landsbanka Íslands hf. Er fallist á með héraðsdómi að upplýsingar um þessa afstöðu breskra stjórnvalda, til viðbótar við þær upplýsingar sem ákærði bjó þegar yfir, séu innherjaupplýsingar í skilningi laga. Verður fallist á forsendur héraðsdóms um þennan lið."
„Í fimmta lagi er vísað til vitnisburðar þeirra, sem sátu fund samráðshópsins 16. september 2008 um þær upplýsingar, sem þar komu fram, um líkleg viðbrögð íslenskra stjórnvalda við fjármálahruni. Er fallist á forsendur héraðsdóms fyrir því að um hafi verið að ræða innherjaupplýsingar. Það breytir ekki þeirri niðurstöðu þótt telja megi líklegt að aðgerðir stjórnvalda til björgunar banka í vandræðum leiði venjulega ekki til þess að hluthafar haldi sínum hlut að fullu. Jafnframt er fallist á, miðað við vitnaframburði annarra í málinu sem sátu fund samráðshópsins þennan dag, að engar forsendur hafi verið fyrir ákærða til þess að álykta að loknum þessum fundi að lausn væri í sjónmáli á vandamálum Landsbanka Íslands hf. vegna Icesave-reikninganna í Bretlandi. Verður að líta svo á að fullyrðing hans um þetta, sem fram kom í bréfi til Fjármálaeftirlitsins 18. nóvember 2008, hafi verið röng.
Baldur Guðlaugsson er lengst til vinstri á myndinni og Geir H Haarde sá fjórði honum á vinstri hönd en hann er sömuleiðis fyrir dómi.
Miðað við þetta er ekki nema von að sjálfstæðismönnum standi ógn af landsdómi og því sem þar kann að koma fram.