Naflaskoðun

Ég sá heilsíðuauglýsingu frá Landssamtökum lífeyrissjóða í blaði í dag sem  hljóðaði efnilega á þann veg að tap sjóðanna væri minniháttar og auðveldlega hefði verið hægt að gera miklu verr. Þetta mun vera nefnt í samhengi við skýrsluna góðu sem kom út á dögunum. Það kom líka fram í auglýsingunni að stjórnendur sjóðanna hefðu ástundað naflaskoðun síðustu misserin og væru til í slaginn aftur. Það gangi bara allt of hægt hjá stjórnvöldum að skapa sjóðunum aftur ákjósanleg skilyrði til umsvifa.

Í því sambandi varð mér hugsað til Lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna og stöðu hans út frá tryggingafræðilegum pælingum. Hún er ekkert svakalega góð eins og sjá má á myndinni hér að ofan (smella á myndina til að stækka hana). Það er ekki ólíklegt að starfsmenn ríkisins og velunnarar ríkissjóðs þurfi að fara að kíkja á naflann á sér og jafnvel hverjir hjá öðrum varðandi þau mál.

Rétt eins og hinir vammlausu stjórnendur lífeyrissjóðanna hafa gert.