Sjávarútvegurinn hefur að mörgu leyti verið leiðandi í umhverfismálum á síðustu áratugum. Þessi hlið greinarinnar hefur hins vegar ekki fengið mikla athygli enda umræða um sjávarútveginn oftast á öðrum nótum.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hafa nú birt ágæta skýrslu um nýtingu auðlindar og umhverfisspor þar sem m.a. er sýnt fram á góðan árangur greinarinnar í umhverfismálum. Þannig hefur eldsneytisnotkun í sjávarútvegi dregist saman um 43% á síðustu 25 árum og er enn að minnka. Hlutfall sjávarútvegsins í losun gróðurhúsalofttegunda hefur á sama tíma farið úr 19,5% af heildarlosun Íslands í 9,7%. Sjávarútvegurinn er að mínu mati til fyrirmyndar þegar kemur að umhverfismálum þó alltaf megi gera betur. Um þetta skrifaði ég stuttan pistil fyrir nokkrum mánuðum sem fékk mikinn lestur en misjöfn viðbrögð eins og gengur.