Skemmtileg hefð

Eitt það skemmtilegasta við þingsetningu hverju sinni er þegar þingmenn draga um sætaskipan í þingsal. Þetta er gömul og góð hefð, vel til þess fallin að blanda hópinn saman og koma í veg fyrir flokkamyndanir í þingsalnum. Sætaskipan gildir í ár í senn þannig að þingmenn víxla sætum og fá nýja sessunauta í upphafi hvers þings. Einu föstu sætin eru þau sem þingmenn sem þurfa einhverra hluta vegna á föstu sæti að halda eins og t.d. Helgi Hjörvar og síðan fá þingflokksformenn frátekin sæti í endaröðum við aðalinnganginn í þingsalinn enda oft á miklum þönum. Sem þingflokksformaður fékk ég sæti nr. 45 sem er fyrsta sæti á vinstri hönd þegar gengið er í þingsalinn. Það er til í dæminu að þingmenn hafa óskað eftir því að verða færðir um sæti eða samið um það við aðra þingmenn einhverra hluta vegna.

Ég var sem áður heppinn með sessunaut að þessu sinni og myndi ekki vilja skipta þó það stæði mér til boða.

Það er sýnt við félagarnir eigum skemmtilegan vetur framundan og höfum um nóg að skrafa þetta þingið enda báðir áhugamenn um enska fótboltann.

Fjárlagafrumvarp 2012

Fjárlagafrumvarp vegna ársins 2012 var lagt fram rétt áðan. Í því frumvarpi kemur í fyrsta sinn frá hruni skýrt fram að okkur hafur tekist að snúa vörn í sókn og erum að uppskera árangur af erfiði síðustu ára.

Samkvæmt frumvarpinu verður samdráttur í útgjöldum verða á bilinu 1,5% - 3% eftir málaflokkum, mest á rekstur og stjórnsýslu en minnst í velferðarkerfinu.

Stærsti hluti nýrra teknar mun koma af sérstökum nýjum skatti á fjármálafyrirtæki, auknu veiðileyfagjaldi af útgerðinni ásamti arðgreiðslum og sölu á eignum ríkisins.

Fjárlagafrumvarpið er til vitnis um tvennt. Í fyrsta lagi að stjórnvöld hafa náð fullkomnum tökum á ríkisfjármálum. Í öðru lagi að almenningur mun ekki þurfa að bera þyngri skattbyrðar af hruninu en þegar er orðið.

Nú munu fjármálafyrirtækin og önnur stórfyrirtæki í landinu sem hafa til þess burði þurfa að skila sínu í hítina sem hrunið framkallaði. Þeim er flestum málið skilt og því engin vorkunn í því leggja sitt af mörkum.

Persónur og leikendur

Formaður sjálfstæðisfflokksins hvetur fólk í útkallinu sínu frá Valhöll til þess að fjölmenna á Austuvöll enda sé það óhætt þar sem „óljóst er hvernig löggæslu við þingsetninguna verður háttað” eins og hann orðar það sjálfur.

Hvað upplýsingar hefur formaður sjálfstæðisflokksins um hugsanlega löggæslu við þinghúsið sem aðrir hafa ekki? Hvaðan hefur þær upplýsingar? Telur hann sjálfan sig öruggan og í tryggu skjóli?

Hver dró meðframbjóðanda hans á Reykjanesi sauðfullan upp úr mótmælunum á Austurvelli fyrir ári?

Hvaðan koma helstu persónur og leikendur á hinu pólistíska sviði dagsins í dag?

Bjarni Ben: Löggan mætir ekki - allir á Austurvöll - fellum ríkisstjórnina!!!

Bjarni Benediktsson, formaður sjálfstæðisflokksins hefur sent flokksfélögum sínum bréf til að hvetja þá til að mæta til mótmæla við þingsetninguna 1. október. Hann vísar til þess að óhætt sé fyrir holla sjálfstæðismenn að mótmæla af krafti enda "óljóst hvernig löggæslu við þingsetninguna verður háttað" eins og segir í bréfinu góða. Bjarni segir nauðsynlegt að sjálfstæðisflokkurinn komist til valda aftur, þrem árum eftir hrunið sem hann olli með tilheyrandi lífskjaraskerðingu, atvinnuleysi og mannlegum harmleik. Hann segir að sjálfstæðisflokkurinn hafi svörin við eigin afglöpum. Hann segir þjóðina eiga þá einu von til framtíðar að Bjarni Benediktsson, Þorgerður Katrín Gunarsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarsson, Illugi Gunnarsson,  Tryggvi Þór Herbertsson, Ólöf Nordal, Jón Gunnarsson, Einar Kristinn Guðfinnsson, Ásbjörn Óttarsson, Pétur Blöndal, Birgir Ármansson, Kristján Þór Júlíusson, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Árni Johnesen komist strax til valda. Þarna innan um er ágætis fólk.

Vel þess virði - eða hvað?

Sjálfstæðismenn hyggjast leggja fram tillögu á þingi um að undirbúa málsókn á hendur Bretum vegna hryðjuverkalaganna sem þeir settu á okkur haustið 2008. Þetta var reyndar skoðað á sínum tíma af hálfu hrunastjórnarinnar sem fékk eina virtustu lögfræðistofu Bretlands til að leggja mat á stöðuna. Niðurstaðan var nokkuð afgerandi eins og segir í svari þeirr: „Lögmennirnir töldu að litlar sem engar líkur væru á því að íslensk stjórnvöld gætu hnekkt kyrrsetningunni fyrir breskum dómstólum. Þá voru þeir þeirrar skoðunar að engar líkur væru á því að íslenska ríkið myndi fá dæmdar skaðabætur fyrir breskum dómstólum vegna kyrrsetningarinnar.“

Semsagt, lítil sem engin von í að fá málið dæmt okkur í hag og engin von um skaðabætur. En það getur svo sem ýmislegt gerst eins og dæmin sanna.

Ég hef fullan skilning á kjarabaráttu lögreglumanna

Ég hef fulla samúð með kjarabaráttu lögreglumanna. Staða þeirra til að beita sér fyrir bættum kjörum er erfið. Þeir voru sviptir verkfallsrétti á sínum tíma en þann rétt hafa aðrar stéttir nýtt í sinni kjarabaráttu oftar en ekki með ágætum árangri. Sjálfur bjó ég við það stóran hluta starfsævinnar að vera sviptur verkfallsrétti af ríkjandi stjórnvöldum. Sjómenn eru líklega sú stétt manna sem hefur mátt þola það oftast allra að vera reknir til starfa í skjóli lagasetningar stjórnvalda (eitt dæmi af mörgum) án þess að fá að semja um sín kjör. Lausleg könnun um borð í einu skipi sem ég var á leiddi í ljós að meirihluti skipverja hafði aldrei fengið að greiða atkvæði um kjör sín. Ríkisvaldið hafði komið í veg fyrir það með lagasetningum. Sú staða getur auðvitað komið upp að grípa þurfi til lagasetninga í þessum tilgangi en það á vera fátíð undantekning í þeim tilgangi að verja almannahagsmuni frá sérhagsmunum.

Því hef ég fullan skilning á stöðu lögreglumanna í dag og skil vel þá reiði og vonbrigði sem þeir eru að upplifa vegna sinna mála.

Rústissu stefnan gekk ekki upp

Fjárlagafrumvarp næsta árs verðu lagt fram á laugardaginn, 1. október eins og lög gera ráð fyrir. Þá hefur stjórnarandstaðan væntanlega upp sinn hefðbundna söng um að nú fari allt endanlega fjandans verði frumvarpið að lögum. Ekki er ólíklegt að einhverjir liðsmenn gömlu hrunaflokkanna muni setja sér það markmið að rústa fjárlögunum á meðan aðrir setja sig í hefðbundnar stellingar hinnar sígildu stjórnarandstöðu. Sem betur fer hefur stjórnarandstöðunni ekki orðið ágengt á þessar vegferð sinni.

Árangurinn stjórnvalda hefur heldur ekki látið standa á sér.

Ef litið er til fyrri helmings yfirstandandi árs kemur í ljós að innheimtar tekjur ríkissjóðs eru nærri 5 milljörðum umfram áætlun. Skatttekjur og tryggingargjöld 4 milljarða umfram áætlun, og skattar á fjármagnstekjur rúma 3 milljarða umfram áætlun. Á sama tíma voru heildar útgjöld ríkissjóðs nærri 3 milljörðum undir áætlun miðað við fjárlög ársins.

Vond byrjun á vinnuvikunni

Ég komst því miður ekki á fundinn þann sem Samtök atvinnulífsins boðuðu til í gærmorgun um atvinnumál eins og ég hafði annars ætlað mér. Eftir á að hyggja og ef marka má fréttir af fundinum er ég ekkert endilega viss um að það hafi verið gott fyrir sálarlífið að byrja vinnuvikuna á slíkum fundi.

Grímur Sæmundsson varaformaður Samtaka atvinnulífsins fullyrti í ræðu sinni á fundinum að ríkisstjórnin og stjórnvöld reyndu hvað þau gætu til að halda fólki atvinnulausu og á atvinnuleysisbótum. Hann sagði einnig að ríkisvaldið reyndi að gera atvinnulausum lífið léttbærara á ýmsan hátt með því að auka réttindi atvinnulausra. Grímur varaformaður var fullur hneykslunar og ekki hægt að skilja orð hans öðruvísi en að réttara væri að gera atvinnulausum lífið eins erfitt fyrir og mögulegt er – ofan í atvinnuleysið. Er það lausnin á vandanum að auka á vanda atvinnulausra að mati varaformanns Samtaka atvinnulífsins? Er of mikil frekja að ætlast til þess að talsmenn Samtaka atvinnulífsins tali af meiri virðingu um þá sem um sárt eiga að binda vegna atvinnumissis en varaformaður samtakana gerir?

Tilgangurinn látin helga meðalið

Haustið 2009 var lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem lagðar voru fram ýmsar breytingar á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um málefni aldraðra.

Í frumvarpinu er m.a. lagt til að lögum um húsnæðismál verði breytt þannig að Íbúðalánsjóði verði heimilt að veita sveitarfélögum lán til bygginga hjúkrunarheimila sem nemur 100% af byggingarkostnaði eða kaupverði hjúkrunarheimilis (sjá gr.21).

Málinu var vísað til umfjöllunar í félags- og tryggingarmálanefnd þingsins til frekari umfjöllunar. Það kom málið síðan aftur til þingsins og var á endanum get að lögum með nokkrum breytingum.

Þeir eru verri en AGS

Í gær setti ég inn færslu hér á vefinn um að sjálfstæðisflokkurinn myndi reyna allt sem hann gæti til að koma í veg fyrir byggingu nýrra hjúkrunarheimila. Í dag kemur í ljós að ég hafði rétt fyrir mér.
Í öllum löndum sem AGS hefur komið að málum hafa stjórnvöld verið rekin til að einkavæða innviði samfélagsins, þ.m.t. heilbrigðis- og velferðarkerfi. Ekkert slíkt gerðist hér á landi. Íslensk stjórnvöld neituðu slíkum æfingum og við það stóð.

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS