Í fréttum í gær var sagt frá því að ákveðið hafi verið að ráðast í framkvæmdir við endurnýjun hjúkrunarrýma víða um land. Fréttin hljómaði svona:
Framundan eru níu milljarða króna framkvæmdir við byggingu og endurnýjun 300 hjúkrunarrýma í tíu sveitarfélögum í landinu. Ætlunin er að skipta út fjölbýli á eldri heimilum og koma í staðinn upp fyrsta flokks aðstöðu fyrir heimilismenn og starfsfólk, segir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra. Um er að ræða byggingu nýrra heimila í Reykjanesbæ og á Ísafirði en áður lá fyrir ákvörðun um framkvæmdir í Hafnarfirði, Kópavogi, Seltjarnarnesi, Fljótsdalshéraði, Akureyri, Borgarbyggð og Mosfellsbæ.
„Þetta verða miklar úrbætur,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra sagði að framkvæmdirnar kæmu sér vel fyrir atvinnulíf á hverjum stað á þessum tíma. Íbúðalánasjóður mun lána til framkvæmdanna en Framkvæmdasjóður aldraða mun síðan greiða af lánunum af sínum tekjustofni en landsmenn greiða sjóðinum nefskatt á ári hverju.