Múgheimska

Willem Buiter, aðalhagfræðingur Citigroup, sagði á ráðstefnunni í Hörpu í gær að íslendingar hefðu nánast allir misst tökin á tilverunni árin fyrir hrun og gefið skynseminni fingurinn. Hann taldi að slík múgheimska hefði aldrei áður átt sér stað í nokkru þróuðu ríki.

Það er margt til í þessu hjá Buiter og reyndar merkilegt hvað múgheimskan virðist rótföst enn þann dag í dag.

Þeir fáu sem reyndu að malda í móinn voru úthrópaðir ýmist sem úrtölumenn eða fólk sem væri hvort eð er á móti öllu og vildi helst hverfa aftur til fortíðar.

Múgheimska er ágætt nýyrði í íslenskri tungu.

Spurning hvort þeir skilja það sem ættu að gera.

Geggjun

Fyrir stuttu átti ég samtal við framkvæmdastjóra í stóru fyrirtæki innan vébanda Samtaka iðnaðarins. Sá var fullur heiftar út í stjórnvöld eins og títt er um marga vel stæða og sterkefnaða menn enda telja þeir öðrum fremur að of þungar kreppu byrðar séu lagðar á herðar þeirra. Þessi sagðist telja rétt að ég (og reyndar fleiri) fengi skot í hnakkann, rétt eins og Quisling forðum. Ég ætti að hafa það hugfast hvernig fór fyrir þeim norska, sagði framkvæmdastjórinn, það gæti auðveldlega hent fleiri, hótaði hann.

Ég velti því fyrir mér að leita til lögreglunnar en ákvað að láta kjurt liggja -  í bili.

Í ljósi sögunnar ...

Guðmundur Steingrímsson segist setja fyrirvara við samstarf við sjálfstæðis- og framsóknarflokkinn.

Í ljósi sögunnar - hver gerir það ekki?

Hæfir kjafti skel

Næst á eftir þeim Davíð Oddssyni og Halldóri Ásgrímssyni er Valgerður Sverrisdóttir sá íslenskur ráðherra sem var beinn gerandi í verstu pólitísku ákvörðunum í síðari tíma stjórnmálasögu Íslands. Ólíkt Halldóri sem hefur lagt talsvert á sig til að reyna að gleymast, virðist Valgerður eiga samleið með ritstjóra Morgunblaðsins sem vill helst ekki að nokkur maður gleymi honum.

Það er ekki leiðum að líkjast.

Aldrei aftur

Forsíða hins gamla Alþýðublaðs þriðjudaginn 25. apríl 1995 er ágætur vitnisburður um ástæður þess sem síðar átti eftir að gerast. Grímulaus ásælni í völd, hvað sem það kostar hefur líklega náð hámarki á þessum dögum og endurspeglast kannski best í því að það það komst á forsíður blaðanna þennan dag að greinst hafi sjaldséðar gleðiviprur í andliti formanns framsóknarflokksins.

Annars segja fyrirsagnirnar allt sem segja þarf – ekki síst að þetta má aldrei gerast aftur.

Ferskar tillögur í efnahagsmáum

Framsóknarmenn lögðu á dögunum fram tillögu til þingsályktunar um stöðugleika í efnahagsmálum. Í þeim tillögum er megináherslan lögð á eftirfarandi:

1. Lækka skatta. 

2. Auka útgjöld.

3. Drífa atvinnulífið í gang.

Sjálfstæðisflokkurinn lagði svo í gær fram sína tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf. Í þeim tillögum er megináherslan hinsvegar lögð á eftirfarandi:

1. Lækka skatta.

2. Auka útgjöld.

3. Drífa atvinnulífið í gang.

Það ber að fagna tímabærum tillögum þessara ólíku stjórnmálaflokka og framlagi þeirra til íslensks efnahagslífs.

Þjóðin á þennan forseta ekki skilið

Þau eru fjölmörg dæmin um að menn missi tökin á tilverunni eftir að hafa verið of lengi við völd. Þá er nánast eins og það snappi eitthvað í toppstykkinu, jarðsambandið hverfur og sýndarveruleiki tekur við af hinum raunverulega. Við höfum séð þetta gerast hér á landi oftar en einu sinni og erum enn að horfa upp á slíkt fyrir augum okkar. Gott dæmi um þetta er forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson.

Dæmið lítur svona út í mjö stuttu máli:

Góðar fréttir eða vondar?

Í gær tilkynnti forstjóri Alcoa á Íslandi þá ákvörðun fyrirtækisins að hætta við áform um að reisa álver á Bakka við Húsavík. Ákvörðun fyrirtækisins var fyrirséð og algjörlega óhjákvæmileg eins og forstjórinn benti á þegar hún var kynnt.

Í tilkynningu fyrirtækisins segir m.a. :

„Alcoa á Íslandi tilkynnti hagsmunaaðilum á Norðurlandi í dag að félagið væri hætt áformum um byggingu álvers á Bakka enda ljóst að ekki muni fást nægileg orka á samkeppnishæfu verði til álsversins. Einnig segir í tilkynningu Alcoa að ekki verði ráðist í framkvæmdir af hálfu fyrirtækisins, „ ... nema tryggt væri að næg orka fengist til álversins á viðunandi verði til framtíðar.“

Ákvörðun sína byggir Alcoa því annarsvegar á því að ekki sé til nægjanleg orka á svæðinu til að réttlætanlegt sé að ráðast í framkvæmdir af þeirri stærðargráðu sem fyrirtækið hafði hugsað sér og hinsvegar á því að fyrirtækið sé ekki samkeppnishæft um verð á þeirri orku sem til er og kann að finnast á svæðinu.

Hvernig ríkisstjórn þá?

Þorsteinn Pálsson fyrrverandi formaður sjálfstæðisflokksins og núverandi pólitískur álitsgjafi segir núverandi ríkisstjórn ekki geta leitt aðildarumsóknina að ESB til lykta.

Það kann að vera rétt.

En hverskonar ríkisstjórn væri þá líkleg til þess? Ríkisstjórn sjálfstæðisflokks og framsóknar?

Af hverju var ESB-sinninn Þorsteinn Pálsson ekki spurður að því?

Kapítalisminn og guð

Í gær fengum við þingmenn bók að gjöf. Bókin heitir „Peningar, græðgi og guð“ og ber undirtitillinn „Hvers vegna kapítalisminn er lausnin en ekki vandamálið.“

Inntak bókarinnar mun vera að kapítalisminn sé ekki af mennskum toga heldur guðlegur í allri sinni dýrðlegu mynd.

Mér var ósjálfrátt hugsað til gömlu biblíusagnanna, t.d. þessarar hér, „Er ekki ritað: Hús mitt á að vera bænahús fyrir allar þjóðir? En þið hafið gert það að ræningjabæli.“ Því hefur verið haldið fram að rekja megi upphaf fjármálaeftirlitisins all aftur til þessa atburðar, þó ekki hafi það alltaf fetað dyggðarinnar veg. Í það minnsta ekki á síðari árum.

Ég hef fundið bókinni „Peningar, græðgi og guð – Hvers vegna kapítalisminn er lausnin en ekki vandamálið“ verðugan stað á skrifstofu minni við Austurvöll.

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS