Það er nauðsynlegt að staðsetja sig af og til í lífinu. Reyna að komast að því hvort maður er á réttri leið eða rangri ef þá yfir höfuð á leiðinni eitthvað. Þannig nær maður að stilla sig af og rétta stefnuna af ef þurfa þykir.
Að undanförnu hefur verið hart sótt að ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar úr mörgum áttum. Því er rétt að staldra aðeins við, líta yfir sviðið og kanna hvort aðförin að stjórninni bendi til þess að hún sé á rangri braut eða réttri.
Á hvaða leið er ríkisstjórnin þegar forsetinn hefur í hótunum við ríkisstjórnina?
Á hvaða leið er ríkisstjórnin þegar biskupinn yfir Íslandi kemur sér undan því að vera við þingsetningu?
Á hvaða leið er ríkisstjórnin þegar forseti Hæstaréttar og handhafi forsetavalds og hæstaréttardómarar sniðganga þingsetningu?
Á hvaða leið er ríkisstjórnin þegar talsmenn lögreglunnar snúast gegn henni og finnst vont lögreglan hafi verið neydd til að verja þinghúsið, þingmenn og gesti þingsins fyrir ofbeldi?
Á hvaða leið er ríkisstjórnin þegar fyrrverandi dómsmálaráðherra telur það henni helst til foráttu að hún vilji breyta stjórnarskránni?