Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra skrifar góða grein í Fréttablaðið í dag. Þar fer hún yfir þann augljósa árangur sem náðst hefur í efnahagsmálum á Íslandi frá hruni sem er forsenda þeirrar lífskjarasóknar sem hafin er. Í greininni ber forsætisráðherra stöðu Íslands saman við það sem er í öðrum löndum sem undirstrikar betur en flest annað að Íslandi er á á réttri leið og lengra á veg komið en flest önnur samanburðarlönd okkar.
Um þetta segir m.a. í nýrri þjóðhagsspá Hagstofunnar (bls.6): „Hagvaxtarhorfur í helstu viðskiptalöndum Íslands hafa versnað að undanförnu. Í spánni er gert ráð fyrir að hagvöxtur í helstu viðskiptalöndum Íslands verði nokkuð minni næstu ár en gert er ráð fyrir í septemberspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hagvöxtur miðað við helstu viðskiptalönd Íslands er í spánni 1,9% árið 2011, 1,5% árið 2012 og 2,1% árið 2013.“
Hagstofan spáir hinsvegar 2,4% hagvexti hér á landi á næsta ári og á móti 2,6% á árinu 2011 sem er umtalsvert meira en í öðrum löndum.