Það er ekkert nýtt að orðræðan beri rökræðuna ofurliði. Um það vitna mörg sorgleg dæmi hér á landi, ekki síst í aðdraganda hrunsins, þar sem síbylja stjórnvalda um þeirra eigin ágæti og að Ísland væri mest og best á öllum sviðum, náði að kaffæra alla gagnrýna umræðu í samfélaginu. Afleiðingarnar þekkjum við öll.
Ég á í samskiptum við fjölda manns á hverjum degi starfs míns vegna. Fæ tugi og stundum hundruð tölvupósta yfir daginn, tek ótal símtöl, fæ margar heimsóknir og sit fleiri fundi en nokkrum manni er hollt að sitja. (Reyndar er ég þeirrar skoðunar að fundir séu almennt verulega ofmetið fyrirbæri – en það er önnur saga).
Því er haldið fram að fólk og fyrirtæki sé að flýja Ísland í stórum stíl vegna skattpíningar. Einn náungi sem ég fékk í heimsókn á skrifstofu mína í vikunni sagði Ísland vera skattahelvíti sem ekki lengur væri búandi á. Þessum fullyrðingum fylgja hinsvegar sjaldan nokkur rök. Hvert eru fyrirtæki að flýja undan sköttum á Íslandi? Hvert flýr launafólk undan meintri skattpíningu?