Undir lok mánaðarins verður haldin stór ráðstefna hér á landi um árangur íslenskra stjórnvalda í efnahagsmálum undir yfirskriftinni: Ísland á batavegi. Lærdómar og verkefni framundan. Ráðstefnan er haldin af íslenskum stjórnvöldum í samvinnu við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og til hennar er boðið mörgum af virtustu efnahagssérfræðingum heims. Í þeim hópi má nefna nóbelsverðlaunahafann Paul Krugman sem seint verður talin æstur aðdáandi AGS og alþjóðahagfræðingana Willem Buiter og Simon Johnson. Að auki mun svo sá þekkti prófessor Joseph Stiglitz verða með innlegg á fundinum auk innlendra sérfræðinga.
Þessi ráðstefna mun án vafa vekja mikla athygli um allan heim enda er umræðuefni áhugavert og Ísland mikið til umræðu vegna þess árangurs sem hér hefur náðst í efnahagsmálum.
Sjálfum finnst mér að ætti að breikka hópinn og bjóða fleirum áhugaverðum sérfræðingum í íslenskum efnahagsmálum til ráðstefnunnar til að fá öll sjónarmið fram. Í því sambandi má t.d. benda á þennan, þennan, þennan og þennan sem öll hafa haft sig mjög í frammi á þessu sviði.
Þau gætu án efa lært eitthvað með þátttöku sinni í ráðstefnunni.