Sagt hefur verið frá því í fréttum að allt að helmingi alls sjávarafla í Norðursjó sé kastað dauðum fyrir borð. Sé þetta rétt þýðir það að brottkast er um 50%, þ.e. að öðrum hverjum fiski er hent fyrir borð. Ljótt er ef satt er.
Umræðan um brottkast á Íslandsmiðum hefur sömuleiðis verið langvinn og hávær. Þegar ég var að byrja minn sjómannsferil þótti það ekkert tiltökumál að henda fiski í sjóinn. Það var gert af ýmsum ástæðum. Fiskurinn gat verið verðlítill eða jafnvel verðlaus, hann þótti kannski of smár til að hirða, veiði var stundum það mikil að ekki hafði undan að við að koma aflanum í lest o.s.frv.