Er engin leið að stöðva þau?

 Fyrirtækið Visir í Grindavík sem er í eigu Páls Jóhanns Pálssonar, þingmanns framsóknarflokksins og fjölskyldu hans, fékk mestu lækkun  allra fyrirtækja þegar ríkisstjórn hægriflokkanna lækkaði veiðigjöld sumarið 2013.
Páll Jóhann Pálsson sagði á Alþingi síðla sumars 2013 að hann væri fulltrúi útgerðarinnar á Alþingi og færi ekki leynt með það. Sem er rétt hjá honum.
Sagt er frá því á visi.is í dag að fyrirtæki í eigu eiginkonu Páls Jóhanns Pálssonar muni fá úthlutað makrílkvóta að verðmæti 50 milljónum króna nái frumvarp þess efnis fram að ganga á Alþingi. Sem verður að teljast líklegt.
Páll Jóhann Pálsson telur sig ekki vanhæfan til að vinna að, undirbúa og greiða atkvæði um mál sem varða gríðarlega persónulega hagsmuni hans, eiginkonu hans og nánustu fjölskyldu.
Ég mótmælti aðkomu þingmannsins að þessum málum á Alþingi sumarið 2013 og sendi forseta Alþingis erindi þar sem ég reyndi að vekja athygli hans á augljósum persónlegum hagsmunum þingmannsins í þessu máli. Þingmenn hægriflokkanna tóku þessum athugasemdum mínum vægast sagt illa og forseti Alþingis taldi ekkert óeðlilegt við aðkomu þingmannsins að málinu.
Þetta lið fer sínu fram hvað sem hver segir og setur ævinlega eigin hagsmuni framar þjóðarhagsmunum, þurfi um það að velja.
Er kannski engin leið að stöðva þau?