Páll Jóhann Pálsson reis til varnar lækkuðu veiðigjaldi í athyglisverðri þingræðu í kvöld, fyrstur framsóknarmanna. Sérstaklega vöktu þó svör hans við andsvörum Ögmundar Jónassonar athygli eins og heyra má á vef Alþingis:
Frá og með 0:28: „Bjóst fyrrverandi ríkisstjórn, bjóst háttvirtur Ögmundur Jónasson við því að þegar hann kæmi inn í útgerðarfyrirtæki að menn færu að moka í hann einhverjum styrkjum, eins og hann var var búinn að koma fram?“
Frá og með 1:10: „Varðandi mig og hagsmunatengslin, ég hef bara talið mig vera fulltrúa útgerðarinnar hérna og hef ekkert farið leynt með það …“
Frá og með 0:15: „Það sem að ég hef sagt er að ég bauð mig fram sem útgerðarmaður og sem talsmaður sjávarbyggða og útgerða og ég mér fannst það bara ekkert of mikið að það væri einn af 63 þingmönnum hérna úr útgerð. Mér sýnist nú í þessari umræðu og nefndarstörfum að það hafi ekkert veitt að því …“
Ég get ekki ímyndað mér annað en að ágætur forseti Alþingis hafi sopið hveljur undir þessum ræðuhöldum og hafi nú þegar rætt all hressilega við þingmanninn og minnt hann á eiðstafinn sem hann setti nafn sitt við þegar hann settist fyrst á þing. Annað væri hneisa af hans hálfu í ljósi þeirra áherslu sem hann lagði á virðingu þingsins í ræðu sinni við þingsetninguna fyrir ríflega mánuði.