Stjórnarliðar stýra öllum nefndum þingsins. Það er óvenjulegt og ekki í anda laga um þingsköp Alþingis sem breytt var árið 2011 með það að markmiði að auka vægi minnihlutans á þingi hverju sinni.
Hégómi er meginástæðan fyrir því að ríkisstjórnarflokkarnir ákváðu að fara fram með þessum hætti. Stjórnarliðar, sérstaklega þó þingmenn sjálfstæðisflokks, eru hégómafullir og leggja mikið upp úr titlum og vegtyllum hvers konar. Þeim þykir gott að geta skreytt sig með nefndarformennsku. Sér í lagi þeim sem ekki fengu ráðherraembætti.
Nefndarformennska er hins vegar langt því frá að vera ráðherraígildi. Sá sem gegnir formennsku í nefnd fer ekki með vald umfram aðra þingmenn. Hann er verkstjóri sem hefur það eina hlutverk að koma málum ríkisstjórnarinnar í gegn sem hraðast og með minnstu mögulegu breytingum eins og ég hef áður bent á af svipuðu tilefni. Formennska kallar hins vegar á aukna vinnu umfram hefðbundin þingstörf og það fylgir því talsvert álag að stýra þingnefnd. Það má því segja að það sé í raun mjög óklókt hjá stjórnarliðum að láta ekki stjórnarandstöðunni eftir formennsku í sem flestum nefndum í stað þess að hlaða störfum á fáliðaðan hóp stjórnarþingmanna.
Hégóminn er harður húsbóndi.