Formenn þingnefnda

 Það gætir ákveðins misskilnings í fjölmiðlum um vald og hlutverk formanna þingnefnda. Sér í lagi þó núverandi formanns fjárlaganefndar Alþingis sem virðist hafa tekið sér stöðu ráðherra í fjölmiðlum og uppveðrast öll sé hún hanteruð sem slík.
Formenn þingnefnda hafa það meginhlutverk að sjá til þess að koma þingmálum í gegnum sínar nefndir eftir kúnstarinnar reglum. Þingmál ríkisstjórna hafa forgang, enda er það forsenda þess að markmið stjórnvalda nái fram að ganga að þingið afgreiði og samþykki mál ríkisstjórna. Formenn þingnefnda hafa ekkert vald umfram aðra þingmenn. Þeir taka ekki ákvarðanir líkt og ráðherrar og fara ekki fram með eigin stefnu eða þingmál, hvað þá að þeir geri breytingar á þingmálum ráðherra í andstöðu við þá eða ríkisstjórnina.
Formenn þingnefnda eru nokkurs konar verkstjórar sem hefur verið falið að þoka þingmálum áfram í gegnum þingnefndir og þingið í umboði þeirra flokka sem þeir sitja á Alþingi fyrir. Geri þeir það ekki er þeim einfaldlega skipt út fyrir aðra.
Svo einfalt er það nú í sjálfu sér.