Þeim til skammar

Bjarni Benediktsson, formaður sjálfstæðisflokksins, sagði í sjónvarpinu í kvöld að tekjur ríkisins væru traustar og að við værum með einn best rekna ríkissjóð í Evrópu.
Í Peningamálum Seðlabankans frá því í maí segir um þetta: „Ef tekjur af stöðugleikaframlögum eru undanskildar versnar afkoma ríkissjóðs á þessu ári samkvæmt grunnspá bankans en batnar hins vegar nokkuð á næstu tveimur árum.“ (bls. 13)
Þetta þýðir með öðrum orðum að undirliggjandi tekjur ríkisins fara versnandi þó þær gætu batnað á næstu árum. Það er því vegna einskiptistekna sem ríkissjóður er ekki í vondum málum núna en ekki vegna þess að ríkissjóður sé einn sá best rekni í heimi.
Kennarar í Verkmenntaskólanum á Akureyri sendu í dag frá sér yfirlýsingu þar sem þeir lýsa yfir þungum áhyggjum af rekstrarvanda skólans. „Við óskum einfaldlega eftir því að fá frið til þess að vinna okkar vinnu með nemendum. Sú óvissa sem hefur verið uppi allt þetta ár og í raun meira og minna frá hruni er algjörlega óásættanleg og þessu verður að linna,“ segir Hermann Jón Tómasson, formaður kennarafélags skólans, um stöðuna.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem stjórnendur og starfsfólk VMA lýsa yfir áhyggjum sínum af rekstri skólans.
Lýsir það góðum rekstri ríkissjóðs að svelta framhaldsskólana svo að þeir eru varla rekstrarhæfir? Er það til vitnis um mikla fjármálasnilld Bjarna Benediktssonar og félaga hans í ríkisstjórn hægriflokkanna að vera nánast búnir að rústa skólastarfinu í VMA og fleiri skólum?
Framkoma hægriflokkanna gagnvart skólastarfi í landinu er þeim til skammar.