Ráðaleysi og ósannindi

Í fyrra sagði forsætisráðherra að ný áætlun um afnám gjaldeyrishafta yrði lögð fram í september – í fyrra. Í fyrra sagði fjármálaráðherra að afnema mætti höftin á „næstu mánuðum.“ Síðasta vetur skipaði forsætisráðherra leynilega hóp snillinga um afnám haftanna sem gera átti tillögur um lausn málsins. Ráðherrarnir tveir hafa gefið svo margar yfirlýsingar um afnám haftanna að það er nánast ómögulegt að halda utan um það. Hér er þó ágætis samantekt um ruglið sem frá þeim hefur komið. Staðreyndin er hins vegar sú að þeir ráða ekki við málið. Því hafa þeir nú loksins, þegar meira en ár er liðið af kjörtímabilinu, gefist upp og ákveðið að biðja um aðstoð. Það er í rauninni það eina rétta sem þeir hafa gert í þessu mikilvægasta máli okkar allra. Ef þetta er þá satt. Ég hef ekki heyrt fjölmiðla spyrja þá félaga, Bjarna og Sigmund, um þversagnirnar í málflutningi þeirra, ósannindin og ráðaleysið, hvernig sem á því stendur.
Til gamans má svo benda á að enn er unnið eftir áætlun um afnám gjaldeyrishafta sem samþykkt var á Alþingi í mars 2011 og þeim Bjarna og Sigmundi þótti þá ómöguleg.