Samhengislaust rugl um höftin

Hér er stutt samantekt á yfirlýsingum formanna ríkisstjórnarflokkanna um afnám gjaldeyrishaftanna:

27. maí 2013: Forsætisráðherra tilkynnir að áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna verði lögð fram í haust. Áætlunin verði byggð á leynilegum hugmyndum ráðherrans.
27. maí 2013: Forsætisráðherra tímasetur framlagningu áætlunar sinnar nánar, þ.e. í september 2013.
15. ágúst 2013: Forsætisráðherra tilkynnir um að sérstakur gjaldeyrishaftaafnámsstjóri (!) verði skipaður strax eftir helgina.
20. september 2013: Forsætisráðherra segir að viðræður við kröfuhafa hefjist þegar rétta umgjörðin (áætlunin) verði til staðar. „En við erum á þeim stað að það er líklegt að afnám gjaldeyrishafta geti hafist  í fyrirsjáanlegri framtíð,“ segir ráðherrann.
15. 10. 2013: Bjarni Benediktsson segir að stutt sé í afnám haftanna og það geti jafnvel gerst innan sex mánaða (í síðasta lagi 15. apríl).
15. nóvember 2013: Forsætisráðherra skipar sérstakan ráðgjafahóp um afnám gjaldeyrishaftanna.
20. febrúar 2014: Forsætisráðherra segir í þinginu: „Það þjónar ekki tilganginum að gera þá áætlun sem stjórnvöld hafa um afnám hafta opinbera.“
20. febrúar 2014: Forsætisráðherra segir að það standi á Seðlabankanum að leggja fram áætlun um afnám haftanna: Ekki er hægt að ljúka við áætlun um afnám gjaldeyrishafta fyrr en Seðlabanki Íslands hefur skilað ríkisstjórninni áætlun um mat á greiðslujöfnuði,“ segir forsætisráðherra. ,,Ólíklegt er að áætlunin verði gerð opinber þegar hún verður tilbúin.“
25. febrúar 2014: Bjarni Benediktsson á fundi í Valhöll: „Það eru jákvæð teikn á lofti hvað varðar afnám gjaldeyrishafta þar sem áætlun sem við settum í framkvæmd í haust er í fullum gangi."

Í fljótu bragði sýnist mér þetta vera meira og minna samhengislaust rugl.
Er áætlunin tilbúin eða er hún það ekki?
Er unnið eftir einhverri áætlun og hver er hún þá?
Það væri verðugt verkefni fyrir einhvern góðan fjölmiðil að fá botn í þetta.
Einhvern sem nennir.