Tvær góðar - ein vond

Þrjár fréttir úr sjávarútveginum hafa vakið athygli á síðustu dögum. Í fyrsta lagi  tilkynnti Ísfélagið í Vestmannaeyjum um kaup á nýju og glæsilegu uppsjávarskipi sem verður eitt alöflugasta skip flotans þegar að því kemur. Það er ekki nema rétt ríflega ár frá því Ísfélagið tók við nýju og öflugu uppsjávarskipi sem hefur reynst vel og fiskað enn betur. Það er reyndar frekar kjánalegt hvað eigendur þessa stóra og sterka fyrirtækis kvarta mikið yfir örlögum sínum í hvert skipti sem þeir kaupa eða taka við nýjum skipum. Get ekki séð að það sé nokkur ástæða til þess.
Í öðru lagi hefur Samherji birt afkomutölur síðasta árs þar sem fram kemur að hagnaður fyrirtækisins er nærri 16 mia.kr. sem er gríðarleg aukning frá fyrra ári. Það ber reyndar að taka tillit til þess að hluti þess hagnaðar er söluhagnaður en engu að síður er ljóst að rekstur fyrirtækisins hefur gengið afar vel og skilað eigendum og samfélaginu miklum tekjum.
Þá er komið að vondu fréttinni. Hún birtist okkur í viðtali við fyrrum vinnuveitanda minn og félaga, Guðmund Kristjánsson, eiganda Brims hf. sem vill að samið verði sérstaklega við sjómenn um veiðar í lögsögum annarra ríkja vegna þess að „Allar þjóðir sem stunda veiðar utan eigin landhelgi verða að kaupa veiðileyfi af viðkomandi strandþjóð.” Það vita allir hvað þetta þýðir enda verður það þá þannig að “Ef sjómönnum finnast þeir með alltof lág laun, ráða þeir sig einfaldlega ekki til slíkra veiða.” Fyrir þá sem ekki muna þá var sérstakt veiðigjald á botnfisk nánast lagt niður vegna þess að botnfiskútgerðir (eins og Brim hf.) töldu sig ekki geta staðið undir því á meðan gjaldið á uppsjávarveiðar var hækkað. Þó finnst þeim eðlilegt að greiða fyrir aðgang að lögsögum annarra ríkja. Merkilegt! Rót þessa viðtals er án vafa kaup Brims hf. á stærsta og öflugasta frystitogara landsins á síðasta ári. Þannig að í grunninn má segja að fréttinn sé góð ef vel er að gáð!
Í Viðskiptablaðinu í dag eru birtar afkomutölur nokkurra sjávarútvegsfyrirtækja síðustu tvo árin.
Sjávarútvegurinn er á góðri siglingu – sem betur fer.