Afsakið á meðan ég æli

Elín Hirst er í hópi öflugustu þingmanna sjálfstæðisflokksins. Stundum verður henni samt svo heiftarlega á í messunni að mann sundlar. Í nýjasta pistli sínum gagnrýnir hún stjórnendur Landsbankans fyrir að ætla að byggja nýjar höfuðstöðvar fyrir bankann „á sama tíma og það skortir fé til að byggja nýjan Landspítala.“ Á Elínu má skilja að hún vilji að Landsbankinn byggi nýjan spítala fyrir ríkið sem skortir fé til þess.
Þvílíkt rugl!!!
Það sem af er fyrsta kjörtímabili Elínar Hirts á Alþingi hefur hún stutt af heilum hug allar aðgerðir hægriflokkanna, þ.m.t. skattalækkanir á fyrirtæki og auðuga Íslendinga sem nemur um 100 milljörðum króna á kjörtímabilinu. Til viðbótar studdi hún af öllu afli stóru millifærsluna sem færir fjármálakerfinu um 150 milljarða beint úr ríkissjóði. Hún hefur staðið fyrir því sem þingmaður að ausa fé úr ríkissjóði og skera niður tekjur upp á 250 milljarða króna – hvorki meira né minna. Fyrir þá upphæð má byggja 3 - 4 nýja Landspítala.
Það skortir ekki peninga til að byggja nýjan Landspítala. Það skortir til þess pólitískan vilja og framtíðarsýn sem hvorki Elín Hirts né aðrir þingmenn hægriflokkanna hafa.
Pistill Elínar Hirst er popúlismi og loddaraskapur af sverustu gerð.
Afsakið á meðan ég æli.