Ríkisstjórn hægriflokkanna tók á fyrsta starfsári sínu ákvörðun um að hafna tekjum í ríkissjóð upp á ríflega 100 milljarða króna á kjörtímabilinu. Það gerði hún með því að fella niður auðlegðarskatt, lækka veiðigjöld, lækka skatta á tekjuhæsta hópinn, fella niður vörugjöld og fleira slíkt. Því til viðbótar ráðstafaði ríkisstjórnin um 150 milljörðum í sérstaka skattaafslætti og til fjármálastofnana á kostnað skattgreiðenda. Þessar aðgerðir allar gagnast fyrst og fremst efnameira fólki. Á sama tíma hafa skattar á matvæli hækkað og vaxtabætur lækkað, svo dæmi séu tekin, sem kemur þeim tekjulægstu verst af öllum. Þannig hefur ríkisstjórn hægriflokkanna nú þegar varið 250 milljörðum króna til að bæta kjör hinna tekjuhæstu í landinu á kostnað hinna.
Það hlýtur að vera heimsmet.
Ríkisstjórn hægrimanna mætir svo að því er virðist algjörlega blönk og óundirbúin til leiks við aðila vinnumarkaðarins. Stjórnvöld hafa ekki lagt neinar tillögur fram til lausnar og ekki varpað fram nokkrum hugmyndum til að liðka fyrir samningum. Formenn stjórnarflokkanna eru ráðalausir með öllu og vita ekki sitt rjúkandi ráð.
Þetta er sá veruleiki sem blasir við nú þegar launafólk hefur ákveðið að fara í verkföll.
Lái þeim hver sem vill.