Rökræðan á undanhaldi

Skýrsla rannsóknarnfendar Alþingis um aðdraganda og orsakir Hrunsins gleymd og grafin. Það tók innan við ár að þagga hana niður. Þó ætti hún að vera skyldulesning í skólum landsins, í það minnsta áttunda bindið sem fjallar um siðferðilega þætti málsins. Miklu frekar en Morgunblaðið.
Ágæt skýrsla Seðlabankans um valkosti Íslands í gjaldeyrismálum fékk aldrei þá umfjöllun sem hún átti skilið. Hún var brennd á báli rökleysunnar og tætt í sundur af þeim sem halda að íslenska krónan sé hornsteinn samfélagsins og tal um aðra mynt jafanist á við föðurlandssvik.
Það tók stjórnvöld með SDG forsætisráðherra landsins u.þ.b. tvær vikur að tortryggja svo skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð að hún er ekki lengur nefnd á nafn. Væntanleg skýrsla um sparisjóðina fær án nokkurs efa sömu útreið úr herbúðum stjórnarliða.
Umræðan um staðsetningu flugvallarins í Reykjavík er umvafin pólitísku klámi. Því er haldið fram að valið standi á milli lífs og dauða einstaklinga og/eða landsbyggðarinnar.
Það má nefna fjölmörg önnur dæmi.
Það lítur út fyrir að rökræðan hafi tapast og öskurræðan hafa orðið ofan á.
Sem væri sorglega neikvæð niðurstaða eftir allt sem undan er gengið.